„Í listrænni sýn hátíðarinnar kemur fram að listir séu ekki forréttindi fárra heldur réttindi allra og ég vona að dagskráin í ár beri því vitni. Ég vil ekki að fólk þurfi að taka upp veskið í hvert skipti sem það nýtur lista, þó það sé bæði nauðsynlegt og skiljanlegt inn á milli,“ segir Vigdís Jakobsdóttir, listrænn stjórnandi hátíðarinnar.
„Listahátíð er rekin að stærstum hluta fyrir almannafé. Ég lít á það sem skyldu hátíðarinnar að mæta sem fjölbreyttustum hópi og til þess þarf að beita alls konar leiðum bæði í verkefnavali, framsetningu og kynningu.“

„Samtalið sem við getum átt í gegnum listina er svo dýrmætt og það þurfa fleiri að hafa tækifæri til að koma að því borði. Ein af hindrununum hvað það varðar er efnahagur. Fyrir Listahátíð, sem er að stóru leyti styrkt fyrir almannafé, er mögulegt að rjúfa að minnsta kosti þann vegg að hluta.“