Túnis er orðinn einn helsti viðkomustaður flóttamanna áður en þeir halda för sinni áfram yfir til Evrópu. Breska ríkisútvarpið segir að það megi rekja til aðgerða gegn smyglurum í nágrannaríkinu Líbýu, sem hafa drepið, pyntað og hneppt flóttamenn í þrældóm.
Smyglararnir hafi því í auknum mæli fært starfsemi sína yfir landamærin. Þá sé siglingin jafnframt styttri til Ítalíu frá Túnis en frá Líbýu.
Talið er að um 180 manns hafi verið í bátnum sem hvolfdi um helgina, þar af voru 100 farþegar frá Túnis. Björgunaraðgerðir voru stöðvaðar í gærkvöldi en innanríkisráðherra Túnis segir að þeim verði framhaldið í birtingu.
Í samtali við Reuters sagði einn sjónarvottur að skipstjóri bátsins hafi stungið af skömmu eftir að síga fór á ógæfuhliðina. Ætla má að hann hafi verið að flýja laganna verði.