Aðdáendur Friends-þáttanna vinsælu sem vonast hafa eftir því að stjörnur þáttanna komi saman og geri einhvers konar framhaldsþætti- eða mynd geta gleymt því að það gerist.
„Þetta gerist aldrei. Aldrei,“ sagði David Crane, einn af sköpurum þáttanna ofurvinsælu um vinina í New York. Ástæðan er einföld.
„Við kláruðum þetta. Þetta er búið. Við viljum ekki sjá meira af þessu vegna þess að þættirnir enduðu vel fyrir alla,“ sagði Crane á ráðstefnu í Los Angeles á dögunum.
Allt frá því að þættirnir runnu sitt skeið á enda árið 2004 hafa verið uppi orðrómar um að einhvers konar endurkoma sé á döfinni. Í gegnum árin hafa leikararnir verið þráspurður um möguleikann en hafa þeir yfirleitt þvertekið fyrir að slíkt sé á dagskrá.
Greindi Crane einnig frá því að í sínum hugarheimi væri allt í blóma hjá karakterum þáttanna. Ross og Rachel væru enn saman sem og Chandler og Monica.
