Zlatan var búinn að leggja landsliðsskóna á hilluna en eftir að Svíar tryggðu sig inn á HM opnaði hann á þann möguleika að fara með liðinu til Rússlands og enda landsliðsferilinn þar. Af því varð ekki þar sem hann var einfaldlega ekki valinn í liðið. Sænskir fjölmiðlar tóku ekki sérstaklega vel í það er Zlatan bauðst til þess að fara með á HM.
„Allir bestu leikmenn heims eru á HM en ekki Zlatan. Hann hefði átt að vera þar en er það ekki. Sænskir fjölmiðlar segja að liðið sé betra án mín þannig að ég hef mikla trú á liðinu,“ sagði Zlatan af smá kaldhæðni en hann vill meina að sænsku miðlarnir hafi gert út um möguleika hans að komast á HM.
„Svona eru sænsku fjölmiðlarnir. Ég er ekki með hefðbundið sænskt nafn eða haga mér almennt eins og Svíar gera. Samt er ég með frábæran árangur með landsliðinu. Ég veit hvernig á að vinna. Treystið mér.“
Zlatan skoraði 62 mörk í 116 landsleikjum fyrir Svíþjóð.
.@Ibra_official talks #WorldCuppic.twitter.com/Cajy61QK02
— LA Galaxy (@LAGalaxy) June 8, 2018