Formúla 1

Daniel Ricciardo sigraði í Mónakó

Einar Sigurvinsson skrifar
Daniel Ricciardo fagnar sigrinum í dag.
Daniel Ricciardo fagnar sigrinum í dag. getty
Ástralinn Daniel Ricciardo sem keyrir fyrir Red Bull, sigraði Formúlu 1 kappaksturinn í Mónakó. Þetta var annar sigur hans á tímabilinu.

Ricciardo tókst með miklum glæsibrag að halda Sebastian Vettel fyrir aftan sig þrátt fyrir að hafa verið í vandræðum með bíl sinn síðustu 50 hringina, en mjög erfitt er að taka fram úr á brautinni í Mónakó.

„Ég fann kraftinn minnka og ég hélt að kappakstrinum væri lokið. Það voru nokkrar efasemdir um að við myndum ná að halda þetta út, en við unnum Mónakó,“ sagði Ricciardo að akstri loknum, en hann tilkynnti um vandræði með bíl sinn á hring 28. hring.

Ferrari ökuþórinn Sebastian Vettel endaði í 2. sæti og Lewis Hamilton sem keyrir fyrir Mercedes endaði í 3. sætinu, en Mercedes hefur nú 19 stiga forskot á Ferrari í keppni bílasmiða.

Lewis Hamilton er stigahæstur meðal ökuþóra með 110 stig, næstur kemur Vettel með 96 stig en Ricciardo er í 3. sæti með 72 stig. Þeir hafa nú allir unnið tvær keppnir á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×