Enski boltinn

Byssutattú Raheem Sterling er til minningar um föður hans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nýja tattúið hans Raheem Sterling.
Nýja tattúið hans Raheem Sterling. Vísir/AFP
Raheem Sterling fékk að heyra það í enskum fjölmiðlum í gær eftir að menn sáu nýja tattúið hans en Manchester City leikmaðurinn hefur nú sagt frá sinni hlið á málinu.

Raheem Sterling lét setja á sitt risastórt byssutattú en það er á hægri fæti hans. Byssan er veglegur riffill sem nær upp eftir öllum kálfa hans.

The Sun sló þessu upp á forsíðu sinni í gær undir fyrirsögninni „sick“ eða „sjúkt“ en leikmaðurinn sjálfur útskýrði þetta á Instagram.





„Þegar ég var tveggja ára gamall þá var faðir minn skotinn til bana. Ég lofaði þá sjálfum mér að ég myndi aldrei snerta byssu. Ég skýt með hægri fæti þannig að þetta húðflúr hefur mun dýpri þýðingu,“ skrifaði Raheem Sterling á Instagram undir myndinni af forsíðu The Sun.

Hinn 23 ára gamli Raheem Sterling benti einnig á það að tattúið væri ekki enn tilbúið og því má búast við að það muni stækka og breytast á næstu misserum.

Raheem Sterling átti frábært tímabil með Englandsmeisturum Manchester City og er á leiðinni á HM í Rússlandi með enska landsliðinu. Sterling hefur spilað það vel að hann hefur verið orðaður við lið Real Madrid, Barcelona og Paris Saint-Germain í enskum fjölmiðlum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×