Spilarar þurfa því að velja sér fylkingu og klára málið en hverri fylkingu fylgja sérstakir bónusar. Sameina Bretlandseyjar undir stjórn Alfreðs, sigra þær undir stjórn víkinga eða velja sér annan konung.
Kortið virðist minna en áður en á móti kemur að það er einstaklega þétt og maður tekur varla eftir smæðinni. Oftar en ekki geta herir gengið beint frá einni borg, eða bæ, til annarrar borgar. Það leðir til þess að spilarar þurfa að skipuleggja sig vel og huga að óvörðum landamærum. Því óvinir geta farið illa með mann á tiltölulega skömmum tíma ef maður passar sig ekki.
Heimsk gervigreind
Besti hluti Total War leikjanna hafa ávalt verið orrusturnar, sem spilaðar eru í rauntíma og spilarar hafa ávalt þurft að beita mikilli taktík. Það er þó eitthvað sem vantar í ToB. Warhammer leikirnir hafa í raun spillt fyrir manni þar sem hver fylking var með mismunandi heri en það er ekki að sjá í ToB. Flestir herirnir eru eins og sömuleiðis er gervigreindin ekkert svakalega greind.
Nánast allar mínar orrustur, og þá sérstaklega til að byrja með, voru eins. Ég stillti upp fótgönguliði með sverð og axir í miðju orrustulínu minnar og með spjótamenn á hliðunum. Tölvan sendi riddaralið upp með köntum orrustuvallarins og sendi þá ávalt beint í fasið á spjótamönnunum mínum. í kjölfar þess dó riddaraliðið.
Þegar orrustulínurnar mættust sendi ég fótgöngulið sem ég hélt til hliðar upp með köntunum og í bakið á orrustulínum tölvunnar. Hún féll svo um sjálfa sig og óvinirnir flúðu. Þetta gerðist í nánast hvert einasta sinn.
Þrátt fyrir það er alltaf gaman að spila orrustur og þá sérstaklega þegar maður er með minni her en andstæðingur sinn. Það er fátt skemmtilegra en að standa sig vel og sigra orrustu sem maður átti ekki séns í.
Þetta bætir á hlutverkaspilunarhluta leiksins þar sem hver getur spilað eftir sínu höfði. Lagt áherslu á efnahag og trú, bogamenn, spjótamenn eða riddaralið. Það er margt í boði.
Eins og áður segir er ToB minni í sniðum en fyrri Total War leikir og kemur það hvergi betur fram en í sigurskilyrðum leiksins. Með bæði víkingunum og Alfreð var ég búinn að vinna leikinn, að hluta til, áður en ég vissi af. Boðið er upp á sjö tegundir sigra sem snúa að stærð konungsríkja, frægð konunga, allsherjarsigurs og fleira. Sumir af þessu svokölluðu sigrum virðast bara gerast sjálfkrafa og án þess að maður hafi eitthvað sérstaklega verið að reyna að ná þeim.
Heilt yfir litið er ToB ágætur leikur. Hann er ekki besti Total War leikurinn en það er marga góða hluti að finna í leiknum. Sömuleiðis er slæma hluti að finna og þá sérstaklega varðandi gervigreind í orrustum og skort á einstökum herdeildum. Aðdáendur Total War leikjanna ættu þó ekki að verða fyrir vonbrigðum.