Lokakeppni HM 1994 var haldin í Bandaríkjunum. Þar var mættur hinn 17 ára Rigobert Song á sitt fyrsta heimsmeistaramót. Eftir 2-2 jafntefli gegn Svíum í fyrsta leik mætti Kamerún Brasilíu í Stanford, Kaliforníufylki.
Romario hafði komið Brasilíu yfir í fyrri hálfleik og var staðan 1-0 þegar Song fór í allt of seina tæklingu á Bebeto og fékk að líta beint rautt spjald. Þremur mínútum seinna skoraði Marcio Santos og Bebeto bætti við þriðja markinu, Brasilía vann 3-0. Song var svo í banni í þriðja leiknum sem tapaðist 6-1 og Kamerún úr leik með eitt stig úr riðlinum.

Sextán árum seinna var frændi Rigobert, Alex Song, mættur á HM í Brasilíu með Kamerún. Eftir tap gegn Mexíkó í fyrsta leik mætti Kamerún Króatíu. Seint í fyrri hálfleik var eins og allt vit hefði horfið Alex Song og hann sló Mario Mandzukic í bakið og fékk beint rautt spjald. Króatía vann leikinn 4-0 og enn einu sinni datt Kamerún úr keppni á botni riðils síns.
FIFA gaf Song þriggja mánaða bann fyrir brotið og leikurinn var hans síðasti fyrir kamerúnska landsliðið því hann lagði landsliðsskóna á hilluna í janúar 2015, aðeins 27 ára að aldri.
Vísir telur niður fyrir HM í knattspyrnu sem hefst í Rússlandi þann 14. júní. Íþróttafréttamenn Vísis munu fylgja íslenska landsliðinu eftir hvert fótmál ytra.