Nýsjálenski kvikmyndaleikstjórinn Taika Waititi hefur valdið nokkru uppnámi í heimalandi sínu með ummælum í tímaritsviðtali á dögunum. Waititi, sem er af maóraættum, sagði að þrátt fyrir að Nýja-Sjáland væri besti staðurinn á jörðinni þá væri landið einnig rasískt.
Waititi hefur getið sér gott orð fyrir myndir eins og vampírugamanmyndina „What We Do in the Shadows“ og síðar „Hunt for the Wilderpeople“. Í fyrra fékk hann svo fyrsta tækifærið til að stýra stórri Hollywood-mynd þegar hann gerði framhaldsmyndina „Ragnarök“ um þrumuguðinn Þór.
„Það er rasískara en andskotinn. Ég meina, mér finnst Nýja-Sjáland vera besti staður á plánetunni en það er rasískur staður,“ segir Waititi í viðtali við tímaritið Dazed and Confused.
Þrátt fyrir velgengnina segir Waititi að honum sé mætt heima fyrir með yfirlæti vegna upprunans.
„Oh, þú hefur staðið þig svo vel, er það ekki? Miðað við hvernig þú ólst upp. Miðað við einn af þínu fólki,“ lýsir Waititi viðbrögðum fólks í Auckland við honum.
Almennt segir leikstjórinn að rasismi í garð maóra og fólks af pólýnesískum uppruna sé enn grasserandi á Nýja-Sjálandi.
„Fólk neitar hreinlega að bera maóranöfn rétt fram. Fólk af pólýnesískum uppruna er enn tekið sérstaklega fyrir,“ segir Waititi.
Hollywood-leikstjóri segir heimalandið „rasískara en andskotinn“
