Fótbolti

Einn leikmaður Barcelona getur ennþá orðið Evrópumeistari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Philippe Coutinho.
Philippe Coutinho. Vísir/Getty
Ætli Philippe Coutinho sjái eftir því að hafa farið frá Liverpool til Barcelona í janúar?

Brasilímaðurinn vildi ólmur fara til Barcelona í janúar en nú nokkrum mánuðum síðar er Liverpool komið í undanúrslit Meistaradeildarinnar og Barcelona er úr leik.

Philippe Coutinho gat reyndar ekki hjálpað Barcelona liðinu í útsláttarkeppninni því hann átti ekki spila með tveimur liðum á þessu Meistaradeildartímabili.







Börsungar hefðu nauðsynlega þurft á brasilískri snilli frá Philippe Coutinho í gær þegar ekkert gekk hjá liðinu að brjóta niður varnarmúr Rómarliðsins.

Barcelona þarf því enn á ný að sætta sig við það að detta út í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Þetta breytir því þó ekki að Philippe Coutinho getur enn orðið Evrópumeistari því Liverpool, eina liðið sem hann hefur spilað með í Meistaradeildinni í vetur, er enn með í keppninni.

Liverpool komst áfram með því að slá út Manchester City samanlagt 5-1. Mótherjarnir í undanúrslitun gætu orðið Roma, Real Madrid eða Bayern Münhcen þó Sevilla og Juventus eigi enn möguleika á því á komast áfram í kvöld.





Philippe Coutinho spilaði fimm leiki með Liverpool í riðlakeppni Meistaradeildarinnar fyrir jól og var með fimm mörk og tvær stoðsendingar í þeim leikjum.

Philippe Coutinho ætti því að fá verðlaunapening fari svo að Liverpool fari alla leið og vinni Meistaradeildina í maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×