Um er að ræða glænýtt hús sem hannað var af arkitektastofunni Glámu Kím sem stofnuð var árið 1996.
Húsið er hannað með tilliti til náttúrunnar í kringum það og má sjá fallega blöndu af steinsteypu og timbri.
Sumarhúsið stendur á hæðarhrygg við djúpt og hrikalegt gil með ægifögru útsýni til allra átta. Til norðurs er víðsýni yfir stórt vatn að fjöllum í fjarska. Til austurs blasir við nálægur brattur klettaveggur handan gilsins. Sunnan- og vestanmegin við húsið er fjölbreyttur fjallahringur.
Húsið er hannað með það að markmiði að magna upp þennan tilkomumikla stað með því að ramma inn útsýnisáttir í og við húsið. Þá eru útirými formuð og staðsett þannig að njóta megi sem best sólar og skjóls. Húsið stendur hátt en áhersla var lögð á að það yrði hógvært í fjölbreyttri náttúrunni.
Byggingin samanstendur af þremur ílöngum húshlutum sem raðað er þannig að á milli þeirra er útirými sem opnast í suðurátt. Vestur og austur hlutarnir eru klæddir setrusviði og hýsa annarsvegar svefnaðstöðu og hinsvegar gestahús. Húshlutinn sem tengir þessa tvo hluta er steyptur með svartri sjónsteypu. Hann hýsir stofu og eldhús og er eilítið hærri en hinir. Þar eru stórir inndregnir gluggar í norður- og suðurátt.
Útsýnið er vægast sagt fallegt en hér að neðan má sjá myndir af þessu fallega húsi en ljósmyndarinn Nanne Springer tók myndirnar.







