Enski boltinn

Stjórinn leggur hann í einelti en liðsfélagi telur hann geta orðið einn sá besti í heimi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luke Shaw.
Luke Shaw. Vísir/Getty
Framtíð Luke Shaw hjá Manchester United er í mikilli óvissu eftir harða meðferð frá knattspyrnustjóranum Jose Mourinho sem hefur verið sakaður um að leggja leikmanninn hreinlega í einelti. Liðsfélagi Shaw hjá Manchester United hefur aftur á móti mikla trú á honum.

Ashley Young hefur haldið Luke Shaw út úr liðinu stærsta hluta tímabilsins og vann sér sæti í enska landsliðinu á kostnað Shaw fyrir vináttuleikina við Holland og Ítalíu.

„Hann er frábær leikmaður,“ sagði Ashley Young um Luke Shaw. Luke Shaw á sjö landsleiki en hefur ekki spilað með enska landsliðinu síðan í mars 2017.

„Ég vil að Luke gangi vel. Hann verður bara að koma hausnum í lag og vina vinnuna sína,“ sagði Young og það er ekki hægt að lesa annað út um þeim ummælum að fleirum en Mourinho finnist Shaw þurfa að gera meira á æfingunum.

Mourinho hefur gagnrýnt sérstaklega hugarfarið hjá Luke Shaw og það að leikmaðurinn virðist ekki vera tilbúinn að leggja nógu mikið á sig á æfingavellinum.  Shaw fékk að heyra það eftir síðasta leik, fyrst inn á vellinum, þá þegar hann var tekinn af velli í hálfleik og loks þegar Mourinho gagnrýndi hann eftir leikinn.





Luke Shaw kom til Manchester United frá Southampton árið 2014 og er með samning til ársins 2019. Hann gæti þó farið í sumar enda líklegt að Jose Mourinho reyni þá að selja hann.

„Mér finnst sjálfum eins og hann geti orðið einn sá besti í heimi,“ sagði Ashley Young. Young er 32 ára og tíu árum eldri en Luke Shaw.

Ashley Young talar annars vel um Jose Mourinho. „Stjórinn hefur náð árangri hjá öllum félögum sem hann hefur verið hjá. Ég er viss um að það hefði ekki tekist hjá honum nema af því að hann kann að meðhöndla leikmennina sína,“ sagði Young.

„Við vitum sem leikmenn að við þurfum að leggja okkur fram á æfingunum en stjórinn er alveg til í grín og smá léttleika inn á milli. Við fáum báðar hliðarnar á honum og það er besta leiðin fyrir stjóra að fara,“ sagði Young.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×