Fótbolti

Íslendingaslagur í Meistaradeild Evrópu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sandra María Jessen mætir til leiks í Meistaradeildinni seinni partinn
Sandra María Jessen mætir til leiks í Meistaradeildinni seinni partinn vísir/eyþór
Íslendingaslagur verður í 8-liða úrslitum Meistardeildar kvenna í dag þegar þýska liðið Wolfsburg og Slavia Prag frá Tékklandi mætast.

Landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir hefur verið á mála hjá Wolfsburg síðan sumarið 2016 þegar hún fór yfir til Þýskalands frá Rosengård í Svíþjóð.

Wolfsburg varð Þýskalands- og bikarmeistari á síðasta tímabili en datt út úr Meistaradeildinni í 8-liða úrslitunum gegn franska liðinu Lyon. Wolfsburg hefur tvisvar unnið Meistaradeild Evrópu, 2013 og 2014. Þær fóru í úrslitaleikinn 2016 en töpuðu þá fyrir Lyon.

Sara er meðal markahæstu leikmanna Wolfsburg í Meistaradeildinni í vetur, hún hefur skorað 4 mörk í fjórum leikjum.

Hjá Slavia Prag er einnig að finna íslenska landsliðskonu. Sandra María Jessen fór í janúar út til Tékklands á lánssamningi frá Þór/KA. Samningurinn er til loka apríl og því mun Sandra María koma til baka og spila með Íslandsmeisturunum í Pepsi deildinni í sumar.

Sandra er ekki eina Íslandstengingin við tékkneska liðið en síðustu leikir þess í Meistaradeildinni voru við Stjörnuna. Garðarbæjarliðið mætti Slavia í 16-liða úrslitunum sem voru í nóvember.

Tékkarnir unnu fyrri leikinn í Garðabænum 1-2. Liðin gerðu svo markalaust jafntefli ytra.

Þær hafa aðeins einu sinni áður komist í 8-liða úrslitin, það var fyrir tveimur árum þegar liðið tapaði fyrir Lyon.

Leikurinn hefst klukkan 17:00 að íslenskum tíma og fer fram á heimavelli Wolfsburg í Þýskalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×