Viðskipti erlent

Markaðir óttast viðskiptastríð milli Kína og Bandaríkjanna vegna refsitolla Trump

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump skrifaði undir minnisblað um refsitollana gegn Kína í Hvíta húsinu í dag.
Trump skrifaði undir minnisblað um refsitollana gegn Kína í Hvíta húsinu í dag. Vísir/AFP
Hlutabréf á helstu mörkuðum heims hafa fallið í verðri í dag vegna ótta fjárfesta við að viðskiptastríð brjótist út á milli tveggja stærstu hagkerfa heims eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti um harðar refsiaðgerðir gegn Kínverjum.

Trump tilkynnti í dag um refsitolla á innflutningsvörur frá Kína upp á fimmtíu til sextíu milljarða dollara og takmarkanir á fjárfestingum Kínverja í Bandaríkjunum. Aðgerðirnar eru refsing fyrir það sem Bandaríkjamenn segja að séu áframhaldandi iðnaðarnjósnir og hugverkaþjófnaður Kínverja.

Kínversk stjórnvöld hafa sagst reiðubúin að svara refsitollunum með „nauðsynlegum aðgerðum“. Yfir þúsund vörur eru á lista Hvíta hússins sem refsitollar verða lagðir á, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Verð bréfa í stórum útflutningsfyrirtækjum lækkaði mest á mörkuðum í dag. Þannig féllu hlutabréf í Boeing-flugvélaframleiðandanum og Caterpillar-vinnuvélaframleiðandanum um fimm prósentustig í dag, að því er segir í frétt New York Times.

Dow Jones-hlutabréfavísitalan féll um rúm 723 stig í dag, tæp þrjú prósentustig, samkvæmt frétt Reuters. Allar stærstu hlutabréfavísitölur á Wall Street urðu fyrir mestu lækkun í prósentustigum í sex vikur í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×