„Ég er með litla ferðatannburstann minn, vegna þess að ég er á Íslandi, og svo dró ég fram tannkremið mitt og setti á tannburstann og byrjaði að bursta,“ segir Cranston í myndbandinu sem hann tekur upp á símann sinn inni á ótilgreindu baðherbergi.
Cranston lýsir því svo hvernig bragðið af tannkreminu hafi komið sér óþægilega á óvart.
„Þetta er líklega versta tannkrem sem ég hef smakkað,“ segist Cranston hafa hugsað með sér. Að lokum sýnir Cranston fylgjendum sínum túpuna, sem reyndist hafa verið fótasmyrsl. Skýringin á slæma bragðinu sé því fundin.
Bryan Cranston er Íslendingum eflaust flestum kunnur fyrir leik sinn í þáttaröðinni Breaking Bad. Þar fór hann með hlutverk kennarans og eiturlyfjabarónsins Walters White. Þá lék hann einnig föður söguhetju þáttanna Malcolm in the Middle sem sýndir voru á SkjáEinum.
Ekki er ljóst hvers vegna Cranston hefur ákveðið að sækja Ísland heim né hversu lengi hann mun dvelja hér á landi.