Lífið

Hand­tekinn grunaður um að hafa stolið Óskars­styttu Frances McDormand

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frances McDormand á Óskarnum í gær en styttan góða er við hlið hennar.
Frances McDormand á Óskarnum í gær en styttan góða er við hlið hennar. vísir/getty
Terry Bryant, 47 ára gamall maður, var handtekinn í morgun grunaður um að hafa stolið Óskarsverðlaunastyttu leikkonunnar Frances McDormand. McDormand fékk styttuna á Óskarsverðlaununum í nótt en hún var valin besta leikkona ársins í aðalhlutverki.

Í frétt Guardian segir að maðurinn hafi sett mynd af sér með styttuna á Facebook þar sem hann gortaði sig af því að hafa unnið Óskarinn fyrir bestu tónlist. Hann var skömmu síðar handtekinn grunaður um meiriháttar þjófnað í Governors Ball-veislunni sem ávallt er haldin eftir Óskarsverðlaunin. Lögreglan í Los Angeles segir að Bryant hafi keypt miða í veisluna.

Bryant setti inn myndband á Facebook-síðuna þar sem hann sýndi styttuna „sína“ og tók við hamingjuóskum. Talið er að hann hafi stolið styttu McDormand af borðinu hennar þegar hún var annars staðar í veislunni að fagna með vinum og vandamönnum.



Blaðamaður New York Times, Cara Buckley, setti síðan mynd af Bryant á Twitter og sagði að ljósmyndari í veislunni hefði stoppað manninn og tekið af honum styttuna.

„Eftir stuttan aðskilnað eru Frances og Óskarinn hennar nú hamingjusöm saman á ný. Þau fögnuðu endurfundunum með tvöföldum ostborgara frá In-N-Out Burger,“ sagði talsmaður McDormand, Simon Halls.

Þetta er í annað sinn sem McDormand vinnur Óskar fyrir bestu leikkonuna en fyrra skiptið var fyrir myndina Fargo árið 1996. Kraftmikil ræða hennar þegar hún tók við verðlaununum hefur vakið mikla athygli en þar kallaði hún eftir jafnrétti í Hollywood, ekki bara í orði heldur á borði.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.