Fótbolti

Pochettino: Við áttum meira skilið

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Mauricio Pochettino
Mauricio Pochettino vísir/getty
Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham, var skiljanlega nokkuð dapur á bragði eftir grátlegt tap sinna manna gegn Juventus í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

„Á undir þremur mínútum fengum við á okkur tvö mörk eftir tvö stór mistök og erum dottnir út úr keppninni,“ sagði Pochettino eftir leikinn.

Liðin gerðu 2-2 jafntefli á Ítalíu í fyrri leiknum og Tottenham var mun sterkari aðilinn á Wembley í kvöld, komust yfir með marki Son-heung Min í fyrri hálfleik áður en Gonzalo Higuain og Paulo Dybala skoruðu tvisvar fyrir Juventus eftir um klukkutíma leik.

„Mér fannst við eiga meira skilið úr báðum leikjunum. Ég er mjög stoltur af mínu liði, við spiluðum frábæran fótbolta og stjórnuðum leiknum.“

„Við erum mjög vonsviknir en þannig vex maður. Við munum halda áfram.“

Tottenham lá á marki Juventus undir lok leiksins og skallaði markahrókurinn Harry Kane meðal annars í stöngina.

„Við bjuggum til mikið af færum og það er ljóst að við áttum meira skilið. En fótbolti snýst ekki um hvað þú átt skilið, þú þarft að skora mörk og halda hreinu.“

„Þeir sóttu bara á markið hjá okkur tvisvar eða þrisvar sinnum en þeir eru hæfileikaríkir og nýta sér mistök þín,“ sagði Mauricio Pochettino.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×