Veiði

Hrannar Pétursson býður sig fram til stjórnar SVFR

Karl Lúðvíksson skrifar
Hrannar Pétursson með 95 sm lax í Laxá í Dölum
Hrannar Pétursson með 95 sm lax í Laxá í Dölum Mynd: HP FB
Framboðsfrestur til kosninga til stjórnar SVFR rann út á laugardaginn 10. febrúar og nú þegar hafa tvö framboð verið tilkynnt.

Eins og við greindum frá gefur Árni Friðleifsson fráfarandi Formaður SVFR ekki kost á sér en aðeins eitt framboð hefur komið fram til Formannskjörs sem vitað er til en það er framboð Jóns Þórs Ólafssonar lögmanns og lektors við Háskóla Íslands.  Nú hefur Hrannar Pétursson auglýst sitt framboð til stjórnar og tilkynning frá honum fer hér að neðan.  Kosið verður á Aðalfundi félagsins þann 24. febrúar.

"Ég vil taka þátt í því að efla, styrkja og stækka Stangveiðifélag Reykjavíkur. Þess vegna býð ég mig fram til setu í stjórn félagsins, en ný stjórn verður kjörin á aðalfundi þann 24. febrúar.

Á sama tíma og þeim fjölgar sem stunda útivist og veiði hefur félagsmönnum SVFR fækkað. Flestir voru þeir um 4.000 talsins en hefur síðan fækkað um 35%. Á sama tíma hefur stjórn félagsins unnið mikið afrek og snúið við erfiðum rekstri. Einfaldað hann, greitt niður skuldir og ræktað upp frjóan jarðveg fyrir gróskumikið starf á komandi árum.

Veiðidelluna fékk ég eftir að hafa fengið maríulaxinn í Jarðlangsstaðakvörn í Langá á Mýrum, fyrir margt löngu. Allar götur síðan hefur Langá verið í miklu uppáhaldi hjá mér og veiðiferðirnar þangað eru orðnar margar, hver annarri eftirminnilegri. Líklega er þó árlegrar veiðiferðar í Laxá í Mývatnssveit alltaf beðið með mestri óþreyju á mínum bæ. Sú paradís er nánast Guðleg í allri sinni dýrð, full af spriklandi fiski og óteljandi veiðistöðum. Báðar teljast þessar ár til veiðisvæða SVFR, sem nýverið bætti einni perlunni enn í safnið, Straumfjarðará á Snæfellsnesi, sem ég vona að sem flestir félagsmenn fái tækifæri til að heimsækja.

SVFR stendur á tímamótum. Rekstrarerfiðleikar eru að baki og lykilfólk í félagsstarfinu hefur ákveðið að láta öðrum eftir að leiða félagið inn í nýja tíma. Ég vil taka þátt í þeirri vinnu og festa félagið í sessi sem öflugasta stangveiðifélag landsins. Ég vil taka þátt í að stækka fótspor SVFR í veiðisamfélaginu, stuðla að auknum sýnileika félagsins og fjölgun félagsmanna. Ég vil sjá til þess að sjónarmiðum stangveiðimanna sé haldið á lofti og náttúrugæðum sé ekki fórnað vegna annarra hagsmuna.

Ég er 44 ára gamall, fæddur og uppalinn á Húsavík en búsettur í Reykjavík. Ég starfa sjálfstætt sem ráðgjafi í upplýsinga- og samskiptamálum, en var áður aðstoðarmaður utanríkisráðherra, sérfræðingur í forsætisráðuneytinu, framkvæmdastjóri hjá Vodafone, upplýsingafulltrúi álversins í Straumsvík og fréttamaður á Ríkisssjónvarpinu. Ég er kvæntur Margréti Arnardóttur, framkvæmdastjóra hjá Ölgerðinni, og við eigum 4 börn.

Ég trúi því, að ég geti orðið SVFR að liði. Ég hef áratugareynslu af markaðs- og kynningarstarfi, samskiptum við fjölmiðla og og þekki innviði stjórnsýslunnar. Ég er ástríðufullur veiðimaður og ötull talsmaður þess að veiðimenn sýni hver öðrum, bráðinni og náttúrunni virðingu."






×