Fótbolti

Íslenski hópurinn afþakkaði kvöldverðinn í Sultan-höllinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ætli strákarnir mæti í æfingagallanum í Sultan-höllina í kvöld?
Ætli strákarnir mæti í æfingagallanum í Sultan-höllina í kvöld? Mynd/Fésbókarsíða KSÍ
Íslenska fótboltalandsliðið er nú í Indónesíu þar sem liðið mun mæta heimamönnum í tveimur vináttulandsleikjum.

Það er stíf dagskrá hjá íslenska hópnum auk þessara tveggja leikja eins og fram kemur á heimasíðu indónesíska knattspyrnusambandsins.

Fyrri leikurinn er á morgun en í kvöld var íslenska hópnum boðið til kvöldverðs í Sultan-höllinni í Yogyakarta þar sem leikurinn fer fram. KSÍ afþakkaði hinsvegar það boð og leikmennirnir borðuðu á hótelinu.

Koma íslenska landsliðsins til Indónesíu hefur vakið mikla athygli og leikmenn hafa verið teknir í viðtöl í flestum fjölmiðlum landsins.

Fyrri leikurinn fer fram á Maguwoharjo leikvanginum í Yogyakarta en 23 þúsund miðar voru í boði á þann leik. Seinni leikurinn er aftur á móti á Gelora Bung Karno í Jakarta og þar voru 50 þúsund miðar í boði.

Ísland er miklu meira en hundrað sætum ofar en Indónesía á styrkleikalista FIFA en í íslenska landsliðið vantar marga lykilleikmenn sem eru uppteknir með félagsliðum sínum í Evrópu.



Uppfært frá fjölmiðlafulltrúa KSÍ: Það stóð til að leikmenn íslenska liðsins færu í þennan kvöldverð í Sultan-höllinni. En það passaði illa í dagskránna kvöldið fyrir leik og þvi var það kurteislega afþakkað.





 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×