Fótbolti

Landsliðsþjálfarinn yfirgefur danska landsliðið í miðri æfingaferð í Abú Dabí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Åge Hareide.
Åge Hareide. Vísir/Getty
Skíðaferð danska landsliðsþjálfarans í fótbolta hefur áhrif á undirbúning danska landsliðsins fyrir heimsmeistaramótið í Rússlandi í sumar.

Danir eru eins og við Íslendingar að undirbúa sig fyrir leiki sína á heimsmeistaramótinu í Rússlandi næsta sumar. Þar mæta Danir Frökkum, Áströlum og Perúmönnum.

Åge Hareide er þjálfari danska landsliðsins og var staddur með liðinu í æfingaferð í Abú Dabí í Sameinuðum arabísku furstadæmunum.

Danska liðið mætti Svíum í vináttulandsleik í gær og tapaði leiknum 1-0 þar sem sigurmarkið kom á þriðju mínútu í uppbótartíma.

Það var hinsvegar enginn Åge Hareide á hliðarlínunni því hann treysti sér ekki til að stýra liðinu í þessum leik. Ástæðan er að þessu 64 ára Norðmaður er sárþjáður af bakverkjum.

Åge Hareide féll í skíðaferð milli jóla og nýárs og bakverkirnir voru orðnir svo miklir í æfingaferðinni í Abú Dabí að hann treystir sér ekki að vera lengur í Sameinuðum arabísku furstadæmunum.

Hareide sagði TV2 frá því að hann hefði misst tilfinninguna í öðrum fætunum í flugferðinni til Abú Dabí. Nú þarf hann að harka af sér í annarri langri flugferð heim til Danmerkur.

Jon Dahl Tomasson, aðstoðarþjálfari Åge Hareide, stýrði danska liðinu í leiknum við Svía en aðalþjálfarinn sat á sama tíma sárþjáður upp í stúku.

„Ég vona að sleppa við aðgerð,“ sagði Åge Hareide við TV2 en sagðist jafnframt vera ánægður með að þetta hafi ekki gerst nær heimsmeistarakeppninni.  

Åge Hareide ætlaði að heimasækja alla dönsku landsliðsmennina í Evrópu á næstu mánuðum en segir að ekkert verði af því af því að hann geti hreinlega ekki ferðast í þessu ástandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×