Veiði

Talið niður í fyrsta veiðidag 2018

Karl Lúðvíksson skrifar
Þrátt fyrir að árið sé bara rétt hafið eru veiðimenn þegar farnir að setja sig í stellingar fyrir veiðisumarið 2018.

Veiði hefst að venju 1. apríl með opnun á sjóbirtingssvæðum og stöku vatni en það er þegar mikill hugur í veiðimönnum landsins fyrir sumrinu því mikið er bókað í veiðiár og vatnasvæði landsins og það virðist vera nokkur auking á eftirspurn.  Það vekur athygli að mikil eftirspurn er eftir urriðaleyfum á Þingvöllum en bestu svæðin þar eru nú í höndum Iceland Outfitters og Fish Partners en afar fáir dagar eru eftir hjá báðum aðilum þannig að það er augljóst að margir ætla sér að freista þess að setja í stóran urriða á komandi vertíð.

Úrvinnsla á úthlutun leyfa til félagsmanna SVFR stendur yfir og er von á fréttum þess efnis frá félaginu von bráðar en við höfum haft fregnir af því að mikill umsóknarþungi hafi verið á sum veiðisvæðin.  Það skýrist þá fljótlega hvað verður eftir af leyfum sem fara á almennan markað hjá félaginu þegar opnað verður fyrir vefsöluna.  Mikið er sótt í þau fáu leyfi sem eru á lausu í Ytri Rangá en eins má reikna með að veiðin gæti tekið hraustlegan kipp í Eystri Rangá en núna í sumar fara auknar sleppingar í ána vonandi að skila sér.

Annars vilja getspakir menn ekkert segja til um það hvernig vonir og væntingar standa til komandi sumars enda erfitt að segja til um það þar sem óvissuþátturinn er lítur að skilyrðum í hafi er það sem erfitt er að spá í.  






×