Sigur Rós var stofnuð árið 1994 og var hún nefnd í höfuðið á Sigurrósu Elínu sem er systir Jóns Þórs Birgissonar, söngvara hljómsveitarinnar. Hún var nýkomin í heiminn þegar sveitin var stofnuð.
Sigurrós Elín fagnaði 23 ára afmæli sínu í fyrradag en hún var tekin upp á svið eftir tónleikana og heiðraði hljómsveitin auk áheyrenda hana með afmælissöngnum, sem sunginn var á íslensku.

„Ég viðurkenni alveg að þetta var svolítið vandræðalegt enda er ég ekki vön því að vera upp á sviði,“ segir Sigurrós en bætir við að upplifunin hafi verið æðisleg.
Sigurrós segir afmælisdaginn hafa verið ánægjulegan en hún varði honum í faðmi fjölskyldu og vina. „Ég fór út að borða með fjölskyldunni á Kolabrautinni í Hörpu og Jónsi gat því kíkt við. En svo þurfti hann að hlaupa,“ segir Sigurrós en Jónsi hefur eflaust haft í nægu að snúast undanfarna daga.