Gert var ráð fyrir endurgreiðslunni þegar ákveðið var að gera þáttaröðina og tap Sagafilm því mikið. Farið verður yfir málið með lögfræðingum á næstu dögum, að sögn Hilmars, sem er allt annað en sáttur við niðurstöðuna.
Í dómi nefndar um endurgreiðslu kemur fram að til að fá endurgreiðsluna þurfi að fá minnst fjögur stig. Kórar Íslands fá aðeins þrjú og uppfylla ekki atriði sem snúa að vísun í sögupersónu eða einstakling úr íslenskum menningararfi, sögu úr samfélaginu eða trúarbrögðum. Söguþráðurinn sé ekki byggður á bókmenntaverki, það sé engin sérstök tilvísun til viðfangsefna líðandi stundar og að mikilvægt gildi kóranna hafi ekki komið fram í framleiðslu þáttanna.

Sagafilm kærði þessa niðurstöðu og í greinargerð fyrirtækisins kemur fram að verulegir fjárhagslegri hagsmunir séu eru í húfi. Þá er bent á að bandarísk bílahasarmynd hafi náð þessum fjórum stigum og fengið endurgreiðslu. Hilmar segir að Biggest Loser hafi einnig fengið endurgreiðslu.
Ekki náðist í Þóru Hallgrímsdóttur, formann nefndarinnar, en í greinargerð hennar vegna kæru Sagafilm kemur fram að ekki sé verið að gera lítið úr kórastarfi á Íslandi en það vanti meiri úrvinnslu. Þá hafi eitt stig verið gefið af sanngirnisástæðum. Heildarmatið sé því að þáttaröðin, Kórar Íslands, uppfylli ekki menningarhlutann.