Lífið samstarf

Stígamót utan höfuðborgarsvæðisins

Anna Bentína Hermansen
Anna Bentína Hermansen
Stígamót senda ráðgjafa hálfsmánaðarlega út á land. Meðal annars á Sauðárkrók, Patreksfjörð og til Vestmannaeyja. Nú býðst þjónusta Stígamóta á Ísafirði, Akranesi, Borgarnesi og á Egilsstöðum.



Stígamót hófu þjónustu við Austfirðinga árið 2007. Þjónustan var lögð niður eftir efnahagshrunið, en síðan tekin upp aftur um leið og mögulegt var. Anna Bentína Hermansen hefur sinnt ráðgjöf Stígamóta á Austfjörðum sleitulaust síðan í mars 2012.

„Ég er hér tvo daga hálfsmánaðarlega og það er alltaf pakkbókað í öll viðtöl. Upphaflega kom ég í einn dag hálfsmánaðarlega en þurfti fljótlega að bæta við degi vegna mikillar aðsóknar,“ segir Anna Bentína en hún reynir að létta á viðtölum með því að setja saman hópa. „Ég hef verið með þrjá sjálfshjálparhópa á Egilsstöðum og einn sjálfsstyrkingarhóp.“ Tæplega hundrað einstaklingar hafa leitað til Önnu Bentínu á Austfjörðum á þessum tíma og flestir verið reglulega í viðtölum, sumir í nokkur ár.

Brotaþoli kynferðisofbeldis sem leitað hefur til Stígamóta á Austurlandi og verið í reglulegum viðtölum segir að það hafi breytt öllu að fá þjónustu Stígamóta austur. „Ef ekki væri viðtalsþjónusta á Egilsstöðum þá hefði ég ekki fengið neina aðstoð. Viðtalsþjónusta Stígamóta hefur gefið mér meira en orð fá lýst. Ég veit ekki hvar ég væri án hennar. Ég hef öðlast nýtt líf.“ Jafnframt segir brotaþolinn að það hafi fælingarmátt að innanbæjarmanneskja taki viðtöl, að nauðsynlegt sé að utanaðkomandi ráðgjafi sinni þessari þjónustu.

Anna Bentína segir að þar sem kynferðisofbeldi sé afar viðkvæmt málefni sé það enn þá flóknara í litlum samfélögum. „Fólkinu sem kemur til mín finnst afskaplega gott að ég sé algjörlega ótengd inn í samfélagið og þekki hvorki það né gerandann. Ég fer síðan heim til Reykjavíkur eftir vinnutörn og flýg í burtu með leyndarmálin.“

Hildur Ýr Gísladóttir, námsráðgjafi Verkmenntaskólans á Austurlandi, segir að kynferðisofbeldi hafi gríðarlega mikil áhrif á einstaklinga sem fyrir því verða og áfallið sem það hefur í för með sér er djúpstætt og hefur langvarandi áhrif á brotaþolann: „Sem starfandi náms- og starfsráðgjafi í framhaldsskóla og sem fyrrverandi starfsmaður félagsþjónustu Fjarðabyggðar get ég staðfest að sú þjónusta sem Stígamót veita á Austurlandi er gríðarlega mikilvæg og hefur hjálpað brotaþolum að takast á við afleiðingar ofbeldisins, byggja sig upp og takast á við lífið með reisn.“

Þorgeir Arason, sóknarprestur Egilsstaðaprestakalls, tekur í svipaðan streng og Hildur.

„Ráðgjafi Stígamóta hefur komið reglulega hingað austur á land undanfarin ár og boðið upp á viðtöl á tilteknum stað á Héraði. Í sálgæslu og samskiptum við fólk skynjar maður vel að það er afskaplega dýrmætt fyrir íbúa að geta nýtt sér þjónustu Stígamóta hér á þessu svæði, án þess að þurfa að ferðast til Reykjavíkur. Því miður er þörfin sannarlega til staðar.“



Þessi grein birtist fyrst í sérblaði um Stígamót sem fylgdi Fréttablaðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.