Gagnaleki Magnús Guðmundsson skrifar 20. nóvember 2017 07:00 Aðgengi fjölmiðla að upplýsingum og ábyrg meðhöndlun þeirra er lykilforsenda starfhæfs lýðræðis. Ríki sem stýra upplýsingum út frá hagsmunum valdhafa, útvalinna stétta, fyrirtækja og einstaklinga og beina þeim upplýsingum í gegnum þeim þjónkandi fjölmiðla eru einfaldlega spillt. Markmið slíkra aðgerða er alltaf að vera að villa um fyrir kjósendum eða leyna þá sannleikanum og hafa þannig óeðlileg áhrif á framgang lýðræðisins. Síðastliðinn laugardag birti Morgunblaðið hið margfræga símtal Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, og Davíðs Oddssonar, þáverandi formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands en núverandi ritstjóra þessa sama fjölmiðils. Í símtalinu kemur fram það sem reyndist vera vond ákvarðanataka tveggja manna og átti eftir að verða þjóðinni dýr en þrátt fyrir allt er það ekki stóra málið. Stóra málið er að samtalið skuli birt nú og með þessum hætti. Íslenskir fjölmiðlar hafa lengi kallað eftir því að þetta mikilvæga samtal verði birt almenningi. Enginn fjölmiðill hefur sótt það af viðlíka eftirfylgni og vefmiðillinn Kjarninn og það jafnvel með því að stefna Seðlabankanum með tilheyrandi kostnaði. Eftirfylgni Kjarnans ber með sér skýran vilja til þess að upplýsa þjóðina að fullu um það hvað gerðist í efnahagshruninu en hún felur líka í sér þá staðreynd að upplýsingar á borð við umrætt samtal eru verðmæti. Í þessu tilviki verðmæti sem Seðlabanki Íslands var reiðubúinn til þess að verja fyrir dómstólum með tilheyrandi kostnaði. Morgunblaðið hefur hvorki falast eftir afriti af umræddu samtali frá Seðlabankanum né fengið það afhent. Því er óhjákvæmilegt annað en að álykta að ritstjóri Morgunblaðsins hafi haft það á brott með sér með ólögmætum hætti – gögn tilheyra stofnunum og fyrirtækjum en ekki starfsmönnum – þegar hann var rekinn frá SÍ. Birting samtalsins nú veldur Kjarnanum fjárhagstjóni en staðfestir líka svo ekki verður um villst að valdhafar á borð við Davíð Oddsson eru reiðbúnir til þess að stýra upplýsingum eftir eigin hagsmunum fremur en almennings. Veita kjósendum upplýsingar eftir hentistefnu og óumflýjanlegri nauðsyn fremur en opinni og ábyrgri upplýsingastefnu. Að samtalið skuli dúkka upp í Morgunblaðinu á þessum tíma og með þessum hætti, án allrar staðfestingar um að það sé birt í heild sinni eða rétt með farið, er einstakt dæmi um gagnaleka í íslenskri stjórnsýslu. Gagnalekar sem hafa þann tilgang að upplýsa almenning um sitthvað misjafnt, jafnvel lögbrot, í störfum og fjármálum ráða- og efnamanna hafa löngu sannað mikilvægi sitt fyrir framgang lýðræðisins. En að hafa á brott með sér upplýsingar frá ríkisstofnun, þegar viðkomandi er sagt upp störfum, til þess að nýta þær upplýsingar svo eftir hentugleika jafnvel mörgum árum síðar, er eitthvað allt annað. Eitthvað sem hvorki Seðlabankinn né íslenskir kjósendur eiga lengur að þurfa að þola af völdum hinna yfirgangssömu sérhagsmunaafla sem of lengi hafa hér svo gott sem öllu ráðið. Það er mál að linni.Leiðarinn birtist fyrst í Fréttablaðinu 20. nóvember. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Magnús Guðmundsson Skoðun Mest lesið Þarf ég að flytja úr landi? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir Skoðun Borgið lausnargjaldið Ólafur Hauksson Skoðun Íslenski fasteignamarkaðurinn: spilavíti þar sem húsið vinnur alltaf Ingvar Þóroddsson Skoðun Jólaheimsóknir á aðventunni Guðrún Karls Helgudóttir Skoðun Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Þegar Skagamenn glöddu lítið hjarta María Rut Kristinsdóttir Skoðun Hvað viltu að bíði þín heima? Þórdís Dröfn Andrésdóttir Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Flokkur fólksins ræðst gegn hagsmunum eldra fólks og komandi kynslóða Þorsteinn Sæmundsson Skoðun Vondar hugmyndir í verðbólgu Hildur Sverrisdóttir Skoðun
Aðgengi fjölmiðla að upplýsingum og ábyrg meðhöndlun þeirra er lykilforsenda starfhæfs lýðræðis. Ríki sem stýra upplýsingum út frá hagsmunum valdhafa, útvalinna stétta, fyrirtækja og einstaklinga og beina þeim upplýsingum í gegnum þeim þjónkandi fjölmiðla eru einfaldlega spillt. Markmið slíkra aðgerða er alltaf að vera að villa um fyrir kjósendum eða leyna þá sannleikanum og hafa þannig óeðlileg áhrif á framgang lýðræðisins. Síðastliðinn laugardag birti Morgunblaðið hið margfræga símtal Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, og Davíðs Oddssonar, þáverandi formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands en núverandi ritstjóra þessa sama fjölmiðils. Í símtalinu kemur fram það sem reyndist vera vond ákvarðanataka tveggja manna og átti eftir að verða þjóðinni dýr en þrátt fyrir allt er það ekki stóra málið. Stóra málið er að samtalið skuli birt nú og með þessum hætti. Íslenskir fjölmiðlar hafa lengi kallað eftir því að þetta mikilvæga samtal verði birt almenningi. Enginn fjölmiðill hefur sótt það af viðlíka eftirfylgni og vefmiðillinn Kjarninn og það jafnvel með því að stefna Seðlabankanum með tilheyrandi kostnaði. Eftirfylgni Kjarnans ber með sér skýran vilja til þess að upplýsa þjóðina að fullu um það hvað gerðist í efnahagshruninu en hún felur líka í sér þá staðreynd að upplýsingar á borð við umrætt samtal eru verðmæti. Í þessu tilviki verðmæti sem Seðlabanki Íslands var reiðubúinn til þess að verja fyrir dómstólum með tilheyrandi kostnaði. Morgunblaðið hefur hvorki falast eftir afriti af umræddu samtali frá Seðlabankanum né fengið það afhent. Því er óhjákvæmilegt annað en að álykta að ritstjóri Morgunblaðsins hafi haft það á brott með sér með ólögmætum hætti – gögn tilheyra stofnunum og fyrirtækjum en ekki starfsmönnum – þegar hann var rekinn frá SÍ. Birting samtalsins nú veldur Kjarnanum fjárhagstjóni en staðfestir líka svo ekki verður um villst að valdhafar á borð við Davíð Oddsson eru reiðbúnir til þess að stýra upplýsingum eftir eigin hagsmunum fremur en almennings. Veita kjósendum upplýsingar eftir hentistefnu og óumflýjanlegri nauðsyn fremur en opinni og ábyrgri upplýsingastefnu. Að samtalið skuli dúkka upp í Morgunblaðinu á þessum tíma og með þessum hætti, án allrar staðfestingar um að það sé birt í heild sinni eða rétt með farið, er einstakt dæmi um gagnaleka í íslenskri stjórnsýslu. Gagnalekar sem hafa þann tilgang að upplýsa almenning um sitthvað misjafnt, jafnvel lögbrot, í störfum og fjármálum ráða- og efnamanna hafa löngu sannað mikilvægi sitt fyrir framgang lýðræðisins. En að hafa á brott með sér upplýsingar frá ríkisstofnun, þegar viðkomandi er sagt upp störfum, til þess að nýta þær upplýsingar svo eftir hentugleika jafnvel mörgum árum síðar, er eitthvað allt annað. Eitthvað sem hvorki Seðlabankinn né íslenskir kjósendur eiga lengur að þurfa að þola af völdum hinna yfirgangssömu sérhagsmunaafla sem of lengi hafa hér svo gott sem öllu ráðið. Það er mál að linni.Leiðarinn birtist fyrst í Fréttablaðinu 20. nóvember.