Árný er með BS í sálfræði og valdi sálfræðinámið fram yfir tónlistarnám, en því sá hún stundum eftir á meðan á náminu stóð. Á endanum fór það svo að hún sótti töluverðan innblástur úr sálfræðinni sem hún nýtir sér nú við textagerð. Og ekki er lengur samviskubitinu fyrir að fara.
„Ég hef lengi haft áhuga á því hvernig hugsanir og líðan okkar eru samtvinnuð og því hvað við höfum í raun mikil tök á að stjórna hvernig okkur líður. Þá skiptir svo miklu máli hverju við trúum að við getum. Textarnir fjalla um að brjótast út úr þessum hömlum sem maður setur á sjálfan sig,“ segir Árný.
„Ég var einu sinni viss um að ég gæti aldrei keyrt beinskiptan bíl og að ég kynni ekki að kaupa avókadó. Ég var líka sannfærð um að ég gæti ekki gefið út plötu sem ég væri raunverulega sátt við og gæti ekki leyft mér að vera sátt í eigin skinni. Ekkert af þessu reyndist rétt en ég gat það samt ekki fyrr en ég í rauninni leyfði mér að geta það.“