Réttlæti að utan? Kristín Þorsteinsdóttir skrifar 25. nóvember 2017 07:00 Mannréttindadómstóll Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hafi ekki brotið á Geir H. Haarde við málsmeðferð í máli Geirs fyrir landsdómi. Geir var dæmdur í landsdómi fyrir embættisafglöp í aðdraganda bankahrunsins árið 2008. Eftir situr nokkurt óbragð í munni varðandi hvernig staðið var að ákærunni á hendur Geir. Málatilbúnaðurinn litaðist af pólitískum flokkadráttum. Margir hafa á tilfinningunni að samráðherrar Geirs í ríkisstjórn hafi sloppið af því að þeir framvísuðu réttu flokksskírteini. Málsmeðferðin mun alltaf varpa skugga á málalyktirnar. Geir var þrátt fyrir það sakfelldur. Sú staðreynd situr nú eftir, og hefur hlotið blessun Mannréttindadómstólsins. Þessi vika hefur varla verið Geir H. Haarde sérstaklega þægileg. Fyrst birtist frægt símtal hans við Davíð Oddsson, þá seðlabankastjóra, en þar ákveða gamlir pólitískir samherjar að veita neyðarlán upp á 500 milljónir evra til Kaupþings, þrátt fyrir að Davíð virtist þess fullviss að orð Kaupþingsmanna um að lánið fengist endurgreitt innan nokkurra daga væru ósannindi eða í besta falli óskhyggja. Símtalið er í versta falli sönnunargagn um refsivert brot samkvæmt nýlegri dómaframkvæmd, en í allra besta lagi ber hún vott um stjórnsýsluhætti sem ekki eiga að tíðkast. Auðvitað voru aðstæður fordæmalausar. En sú afsökun hefur ekki dugað öðrum mönnum frammi fyrir dómstólum. Vandséð er hvers vegna ekki gilda sömu lög fyrir alla. Stuðningsmenn Geirs hafa allt frá því dómurinn gekk gert lítið úr landsdómsmálinu. Hann hafi þar verið dæmdur fyrir að hafa ekki haldið fundargerðir, og það geti varla verið tilefni til svona mikils málatilbúnaðar. Getur hins vegar verið að í niðurstöðu Mannréttindadómstólsins annars vegar, og símtalinu við Davíð hins vegar, birtist ákveðið stef? Ber hvort tveggja ekki vitnisburð um kæruleysisleg og óformleg vinnubrögð sem varla geta verið samboðin stjórnsýslu sem vill láta taka sig alvarlega? Vitaskuld er Geir ekki einn sekur um þetta. En símtalið og landsdómsmálið eru birtingarmynd tíma sem vonandi heyra sögunni til. Tíma þegar strákarnir settust niður og leystu málin á gamla mátann. Jafnvel þótt um væri að ræða gríðarlega mikilvæg málefni ríkisins sem snertu hvert einasta mannsbarn í landinu. Langsótt er að Mannréttindadómstóllinn í Strasbourg sýni gamaldags íslensku stjórnsýslufúski mikla meðvirkni. Þess vegna þurfti réttlætið sennilega að koma að utan. Þeir Davíð og Geir eru vonandi síðustu móhíkanar kynslóðar íslenskra valdamanna sem gátu hagað málum eftir sínu höfði fullvissir um að þeir þyrftu aldrei að hlíta almennum leikreglum. Sú staðreynd að annar er ritstjóri fornfrægs fjölmiðils og hinn gegnir einu eftirsóknarverðasta embættinu í íslenskri utanríkisþjónustu bendir þó til þess að tímarnir breytist hægt. Alltof hægt. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birtist í Fréttablaðinu Kristín Þorsteinsdóttir Landsdómur Mest lesið Inngilding – nýyrði sem enginn skilur? Miriam Petra Ómarsdóttir Awad Skoðun Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun Að sætta sig við brot á samkomulagi eða ekki Jón Ágúst Eyjólfsson Skoðun Vantar fleiri lyftara í heilbrigðiskerfið? Ragna Sigurðardóttir Skoðun Geðheilbrigðismál og landsbyggðin Eydís Ásbjörnsdóttir Skoðun Er píparinn þinn skattsvikari? Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Kæra unga móðir Jóna Þórey Pétursdóttir Skoðun Kosningar og ,ehf gatið‘ Róbert Farestveit Skoðun Rekin út fyrir að vera kennari Álfhildur Leifsdóttir Skoðun Verði þitt val, svo á jörðu sem á himni Halldóra Lillý Jóhannsdóttir Skoðun
Mannréttindadómstóll Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hafi ekki brotið á Geir H. Haarde við málsmeðferð í máli Geirs fyrir landsdómi. Geir var dæmdur í landsdómi fyrir embættisafglöp í aðdraganda bankahrunsins árið 2008. Eftir situr nokkurt óbragð í munni varðandi hvernig staðið var að ákærunni á hendur Geir. Málatilbúnaðurinn litaðist af pólitískum flokkadráttum. Margir hafa á tilfinningunni að samráðherrar Geirs í ríkisstjórn hafi sloppið af því að þeir framvísuðu réttu flokksskírteini. Málsmeðferðin mun alltaf varpa skugga á málalyktirnar. Geir var þrátt fyrir það sakfelldur. Sú staðreynd situr nú eftir, og hefur hlotið blessun Mannréttindadómstólsins. Þessi vika hefur varla verið Geir H. Haarde sérstaklega þægileg. Fyrst birtist frægt símtal hans við Davíð Oddsson, þá seðlabankastjóra, en þar ákveða gamlir pólitískir samherjar að veita neyðarlán upp á 500 milljónir evra til Kaupþings, þrátt fyrir að Davíð virtist þess fullviss að orð Kaupþingsmanna um að lánið fengist endurgreitt innan nokkurra daga væru ósannindi eða í besta falli óskhyggja. Símtalið er í versta falli sönnunargagn um refsivert brot samkvæmt nýlegri dómaframkvæmd, en í allra besta lagi ber hún vott um stjórnsýsluhætti sem ekki eiga að tíðkast. Auðvitað voru aðstæður fordæmalausar. En sú afsökun hefur ekki dugað öðrum mönnum frammi fyrir dómstólum. Vandséð er hvers vegna ekki gilda sömu lög fyrir alla. Stuðningsmenn Geirs hafa allt frá því dómurinn gekk gert lítið úr landsdómsmálinu. Hann hafi þar verið dæmdur fyrir að hafa ekki haldið fundargerðir, og það geti varla verið tilefni til svona mikils málatilbúnaðar. Getur hins vegar verið að í niðurstöðu Mannréttindadómstólsins annars vegar, og símtalinu við Davíð hins vegar, birtist ákveðið stef? Ber hvort tveggja ekki vitnisburð um kæruleysisleg og óformleg vinnubrögð sem varla geta verið samboðin stjórnsýslu sem vill láta taka sig alvarlega? Vitaskuld er Geir ekki einn sekur um þetta. En símtalið og landsdómsmálið eru birtingarmynd tíma sem vonandi heyra sögunni til. Tíma þegar strákarnir settust niður og leystu málin á gamla mátann. Jafnvel þótt um væri að ræða gríðarlega mikilvæg málefni ríkisins sem snertu hvert einasta mannsbarn í landinu. Langsótt er að Mannréttindadómstóllinn í Strasbourg sýni gamaldags íslensku stjórnsýslufúski mikla meðvirkni. Þess vegna þurfti réttlætið sennilega að koma að utan. Þeir Davíð og Geir eru vonandi síðustu móhíkanar kynslóðar íslenskra valdamanna sem gátu hagað málum eftir sínu höfði fullvissir um að þeir þyrftu aldrei að hlíta almennum leikreglum. Sú staðreynd að annar er ritstjóri fornfrægs fjölmiðils og hinn gegnir einu eftirsóknarverðasta embættinu í íslenskri utanríkisþjónustu bendir þó til þess að tímarnir breytist hægt. Alltof hægt.
Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun
Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun