Lífið

Knáar í kúluvarpinu

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Þær Stefanía, Andrea Maya og Inga Sólveig stefna allar langt í frjálsum íþróttum.
Þær Stefanía, Andrea Maya og Inga Sólveig stefna allar langt í frjálsum íþróttum. Mynd/Frjálsíþróttaráð Ungmennasambands Skagafjarðar
 Skagfirsku stelpurnar Andrea Maya Chirikadzi, Inga Sólveig Sigurðardóttir og Stefanía Hermannsdóttir komu allar verðlaunaðar heim af Silfurleikum ÍR, sem á sjötta hundrað barna og unglinga tók nýlega þátt í.

Sérstaka athygli vakti árangur þeirra í kúluvarpi. Þar var Andrea Maya í 1. sæti, Stefanía í 3. og Inga Sólveig í 5. hún var líka í 3. sæti í 60 m grindahlaupi.



Stelpurnar eru allar 14 ára nemendur í Árskóla á Sauðárkróki og þakka þennan góða árangur þjálfaranum Arnari, æfingunum og hvatningu foreldra.

Hvað er mikilvægast til að verða góður í kúluvarpi?

Andrea Maya: Mikilvægast er að hafa trú á sér, gefast ekki upp og hafa tæknina á hreinu.

Inga Sólveig: Tæknin og að vera sterkur í handleggjunum.

Stefanía: Að æfa tækni og styrk.



Andrea Maya hefur æft kúluvarpið í fjögur ár, Stefanía þrjú til fjögur og Inga Sólveig eitt.

Hversu oft æfið þið í viku?Andrea Maya: Ég æfi frjálsar fimm daga í viku.

Inga Sólveig: Alla virka daga vikurnar.

Stefanía: Ég æfi frjálsar þrisvar til fjórum sinnum í viku.

Allar æfa stelpurnar fleiri greinar frjálsra íþrótta en kúluvarp. Andrea til dæmis spjótkast, spretthlaup, hástökk og langstökk, Inga Sólveig grindahlaup og Stefanía spjótkast, spretthlaup, langstökk og er að byrja að æfa kringlukast.



Ætlið þið að ná langt?

Andrea Maya: Ég stefni á Ólympíuleikana.

Inga Sólveig: Ég ætla mér langt í frjálsum.

Stefanía: Já, helst, ég stefni á EM og lengra.

Þær gerðu fleira skemmtilegt þegar þær komu suður en að skora hátt á Silfurmótinu, til dæmis að versla, fara í bíó og út að borða.

En hvað langar ykkur að verða í framtíðinni?

Andrea Maya: Mig langar að vinna sem leikari, listamaður eða arkitekt.

Inga Sólveig: Mig langar að verða sjúkraþjálfari.

Stefanía: Vinna eitthvað við íþróttir. Kannski sjúkraþjálfari, en annars er ég ekki viss.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.