„Við höfum ekki skapað jafn sýnilegan vettvang fyrir vörurnar hérlendis fram til þessa, ef frá er talið sölusvæði okkar í Fríhöfninni í Leifsstöð,“ sagði Hildur Ársælsdóttir, markaðsstjóri BIOEFFECT. „Við erum hæstánægð með útlit verslunarinnar; hönnunin er stílhrein og klassísk sem rímar vel við eiginleika vörumerkisins. BIOEFFECT byggir á traustum vísindagrunni en vörurnar eru að sama skapi einfaldar að því leyti að þær eru gerðar úr fáum, en hreinum innihaldsefnum. Jafnvel þótt vísindin á bak við þessar vörur séu flókin er notkun þeirra hins vegar einföld,“ sagði Hildur.
Fjöldi gesta mætti í opnunarhóf nýju verslunarinnar og naut þar veitinga og tónlistarflutnings auk þess sem allir voru leystir út með gjöfum. Á sama tíma kynnti BIOEFFECT nýjustu vöru sína, EGF +2A DAILY TREATMENT, sem verndar húðina fyrir mengun og hægir á öldrunarferli hennar. Kynningin og opnun verslunarinnar voru skipulagðar í tengslum við alþjóðlegan viðburð sem BIOEFFECT stóð fyrir í síðustu viku. Viðburðinn sóttu m.a. nokkrir þekktir, erlendir áhrifavaldar af samfélagsmiðlum sem boðið var sérstaklega hingað ásamt fylgdarliði.







