Framtíð Spánverjans hefur verið mikið á milli tannanna á fólki undanfarið og margir töldu eins árs framlengingu líklegasta kostinn. Miklar sviptingar eru líklegar á ökumannamarkaðnum á næsta ári og Alonso var talinn vilja hafa möguleikana fyrir sér þegar að því kemur.
Tilkynning kom frá liðinu fyrr í dag með myndbandi á Facebook síðu liðsins. Myndbandið má sjá í spilara hér að neðan.
„Við ræðum aldrei opinberlega um smáatriðin í samningnum en hann er til margra ára og við munum taka stöðuna á hlutunum,“ sagði Alonso.
„Ég er mjög spenntur fyrir næsta tímabili, við verðum með aðrar væntingar. Við ætlum okkur að koma McLaren á þann stað sem liðið á að vera. Ég vil bara komast til Ástralíu núna,“ sagði Alonso að auki.
McLaren liðið sleit sambandi sínu við vélaframleiðandann Honda fyrr á árinu. Líklega hefur aðkoma Renault að McLaren hjálpað til við að halda í Alonso. Hann varð tvisvar heimsmeistari með Renault liðinu.
„Red Bull liðið hefur sýnt í ár að það er hægt að nota Renault vélina, þeir hafa tvisvar náð báðum bílum á verðlaunapall. Nú verðum við að stíga upp og láta það gerast,“ sagði Alonso að lokum.