Lífið

Finnur að hann er innilega velkominn

Guðný Hrönn skrifar
Denique mun fagna útgáfu plötunnar á KIKI á morgun klukkan 20.00.
Denique mun fagna útgáfu plötunnar á KIKI á morgun klukkan 20.00. VÍSIR/ANTON BRINK
Kanadíski tónlistarmaðurinn Denique mun á morgun senda frá sér hljómplötu. Hann vildi vera hér á landi þegar platan kemur út því Ísland á sérstakan stað í hjarta hans og hann dreymir um að búa hér.

„Ég vildi senda plötuna, sem ber heitið Shape 1, frá mér á Íslandi af því að hér líður mér eins og heima hjá mér. Ísland er fyrsti áfangastaðurinn sem ég hef ferðast til þar sem mér fannst ég vera innilega velkominn. Þar sem ég gat verið með svartan varalit án þess að finnast ég þurfa að skammast mín og án þess að verða fyrir áreitni. Svo fannst mér eðlilegt að gefa plötuna út á Íslandi þar sem ég fékk mikinn innblástur við gerð hennar frá íslensku umhverfi.“

Denique hefur ferðast víða og kynnst fjölbreyttum samfélögum. En orkan á Íslandi heillar hann og er í sérstöku uppáhaldi. „Ég bjó í Ástralíu í eitt ár, ferðaðist um Evrópu og dvaldi um tíma í Botsvana í Afríku. Af öllum stöðum sem ég hef heimsótt þá er fólk hvað opnast í Reykjavík. Hvað varðar Kanada þá er það yfirleitt þannig að því stærri sem borgin er, því auðveldara er að vera maður sjálfur. En eftir því sem samfélögin verða minni, því síður er samþykkt að maður sé öðruvísi að mínu mati.“

„Ég sjálfur kem úr litlu samfélagi og varð oft fyrir höfnun í tónlistar- og listasamfélaginu. Þess vegna er það svo góð tilbreyting að finna fyrir stuðningi frá fámennu samfélagi, eins og Íslandi.“

„Allir sem ég hef hitt á Íslandi hafa tekið mér svo vel. Það er einhver innri kraftur sem margir Íslendingar búa yfir og það hefur veitt mér innblástur til að vera staðfastur í því sem ég tek mér fyrir hendur.“

Denique dreymir um að búa á Íslandi í framtíðinni. „Núna er ég bara í tveggja vikna heimsókn hérna, og hef áður varið tveimur sumrum hérna. Og ég myndi elska að búa hérna til frambúðar, það er draumur og markmið sem ég hef sett mér. Ég veit að það mun gerast í framtíðinni.

Denique hefur tekist að búa sér til öflugt tengslanet hér á landi og það þykir honum magnað. „Á mínum yngri árum hefði mér aldrei dottið í hug að ég myndi einhvern tímann fá tækifæri til að dvelja í Reykjavík, eignast vini hérna og fagna útgáfu hljómplötu hérna.“

Þess má geta að útgáfuboð fyrir plötu Denique verður á KIKI á morgun klukkan 20.00 og eru allir velkomnir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.