Fótbolti

Guðni forseti vitnaði í Dorrit í leikslok: „Stórasta land í heimi“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, á vellinum í kvöld.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, á vellinum í kvöld. Vísir/E.Stefán
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands var á Laugardalsvellinum í kvöld og sá íslenska fótboltalandsliðið tryggja sér sæti á HM í Rússlandi næsta sumar.

„Gleði, stolt, ánægja er mér efst í hugsa núna. Það er einstakt að vera Íslendingur á þessari stundu,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson í samtali við Eirík Stefán Ásgeirsson strax eftir leikinn á móti Kósóvó í kvöld

„Ég á dálítið bágt með að trúa þessu en strákarnir eru að uppskera eins og þeir hafa sáð. Þetta er engin tilviljun því þetta afrakstur margra ára vinnu,“ sagði Guðni

„Við erum smáþjóð við Íslendingar en við snúum smæðinni í styrk og þess vegna erum við að fagna því núna að við erum langminnsta þjóðin sem hefur náð þessum áfanga. Eins og hún Dorrit okkar orðaði svo yndislega þá erum við „stórasta“ land í heimi,“ sagði Guðni.

„Þetta gerir margt gott fyrir þjóðina og þetta sýnir okkur hvað er hægt með því að setja sér markmið, með því að hafa metnað og með því að temja sér aga. Það er svo margt sem við getum gert svo miklu miklu betur í þessum samfélagi en við skulum leyfa okkur að njóta þess sem vel er gert,“ sagði Guðni að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×