„Þetta byrjaði með því að Listasafn ASÍ tók ákvörðun um að setja upp sýningar í ýmsum bæjum og Hafnarfjörður varð fyrst fyrir valinu. Við Elísabet Gunnarsdóttir, forstöðumaður safnsins, fórum í vettvangsferðir að skoða húsnæði og fannst kapellan strax hentugur staður fyrir það sem við ætluðum að gera,“ segir Sigurður og kveðst nýta aðstæðurnar á vissan hátt, til dæmis gólfið í kapellunni fyrir myndvörpun.
„Áhorfandinn getur gengið kringum verkið og upplifað það eins og skúlptúr. Líka farið upp á svalir og horft yfir. Öllum verkunum fylgja hljóð sem unnin eru út frá myndefninu og hljómburðurinn er mjög góður á staðnum þannig að rétta andrúmsloftið skapast í kapellunni.“

St. Jósefsspítali er við Suðurgötu 41 í Hafnarfirði. Sýningin Innljós er opin þar miðvikudaga til sunnudaga frá 12 til 17 fram í miðjan október og opnuð fyrir hópa utan reglulegs opnunartíma.