Körfubolti

Slóvenar Evrópumeistarar í fyrsta sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Klemen Prepelic var frábær í kvöld og fagnar hér góðri körfu.
Klemen Prepelic var frábær í kvöld og fagnar hér góðri körfu. Vísir/EPA
Slóvenar tryggðu sér Evrópumeistaratitilinn í fyrsta sinn í kvöld þegar liðið vann átta stiga sigur á Serbíu, 93-85, í úrslitaleiknum í Istanbul í Tyrklandi.

NBA-leikmaðurinn Goran Dragic átti stórleik og var með 35 stig þar af 20 þeirra í öðrum leikhlutanum. Klemen Prepelic var einnig frábær með 21 stig á 28 mínútum og þá skoraði 11 stig.

Þetta var fyrsti úrslitaleikur Slóvena en Slóvenía er fyrsta þjóðin úr gömlu Júgóslavíu sem vinnur Evrópumeistaratitilinn. Þetta magnað afrek hjá tveggja milljón manna þjóð.

Slóvenar unnu alla níu leiki sína á mótinu en einn þeirra var í riðlakeppninni á móti Íslandi.

Serbar komust mest fimm stigum yfir í fyrsta leikhlutanum og leiddu 22-20 eftir hann.

Slóveninn Goran Dragic var reyndar kominn með sex stig eftir fyrsta leikhlutann en hann tók leikinn hreinlega yfir í öðrum leikhluta.

Dragic skoraði nefnilega 20 stig í öðrum leikhlutanum sem slóvenska liðið vann 36-25 og náði þar með níu stiga forystu fyrir hálfleik, 56-47.

Serbar komu muninum niður í tvö stig í þriðja hlutanum, 69-67, en Slóvenar voru síðan fjórum stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 71-67.

Serbarnir héldu áfram endurkomu sinni í fjórða leikhlutanum og komust loks yfir í fyrsta sinn síðan í fyrri hálfleik þegar fimm mínútur voru eftir, 78-77.

Lokakafli leiksins var æsispennandi en Anthony Randolph setti niður risakörfu og kom Slóvenum í 66-62 þegar 98 sekúndur voru eftir af leiknum.

Slóvenum tókst að landa sigri og fögnuðu gríðarlega í leikslok enda líklega mesta afrek í íþróttasögu þjóðarinnar.

Spánverjar tryggðu sér bronsverðlaunin fyrr í dag með átta stiga sigri á Rússum, 93-85, en spænska liðið var 17 stigum yfir í hálfleik, 45-28. Þetta er sjötta Evrópumótið í röð sem Spánverjar vinna til verðlauna (3 gull, 1 silfur, 2 brons).

Gasol-bræðurnir voru í aðalhlutverki hjá Spáni, Pau Gasol skoraði 26 stig, tók 10 fráköst, varði 3 skot og gaf 3 stoðsendingar en Marc Gasol var með 25 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×