„Gleði, flott. Þetta var eins og við vildum hafa þetta. Skrítinn leikur en við gerðum það sem við vildum gera,“ voru fyrstu viðbrögð Freys Alexanderssonar, landsliðsþjálfara, eftir 8-0 sigur Íslands á Færeyjum í undankeppni HM 2019.
Færeyska liðið er þó nokkuð slakara heldur en það íslenska, og þó sigurinn hafi verið stór var frammistaða íslenska liðsins ekki fullkomin.
„Það er alltaf eitthvað en ég ætla ekki að fara að telja það upp. Ég er búinn að vera nógu harður við þær. Við skulum leyfa þeim að njóta þess að hafa staðið sig vel,“ sagði Freyr, aðspurður hvar liðið hefði getað gert betur.
„Við getum ekki beðið eftir því að fara til Þýskalands og Tékklands og takast á við þau verkefni. Það var gott að fá góðan leik hérna heima. Mætingin var frábær og góð stemmning í Laugardalnum sem var gott að finna fyrir.“
Íslenska liðið mætir Þjóðverjum 20. október og má búast við að liðið muni þurfa að hafa mun meira fyrir hlutunum í Þýskalandi.
„Við munum spila allt öðruvísi leik þar. Við verðum minna með boltann og ætlum að verjast vel. Þetta eru tvö ólík verkefni.“
Eftir mikla markaþurrð brast stíflan og mörkin komu fjölmörg í kvöld. Hefði Freyr viljað sjá fleiri mörk?
„Ég er alveg sáttur með 8-0.“

