Uncharted serían hefur unnið til margra verðlauna í gegnum tíðina, en Naughty Dog gaf út fyrr á árinu að „ólíklegt“ væri að nýr Uncharted leikur myndi líta dagsins ljós í framtíðinni. Sem er svo sem skiljanlegt þar sem fyrirtækið hefur unnið að leikjunum um áraraðir.
Til marks um það hvað Nadine er æðisleg manneskja segir hún í leiknum að einn af hennar helstu draumum sé að ferðast til Íslands. Skiljanlega. Hana langar að skoða ósnortna náttúru landsins og sjá norðurljós. Verðugt markmið það.
Þetta kemur fram snemma í leiknum þegar þær Chloe og Nadine eru á spjallinu þegar keyrt er á milli verkefna. Þær tvær eru algerar andstæður og ná illa saman í fyrstu sem gerir ferðalag þeirra skemmtilegra fyrir vikið.
Stærsti galli UTLL er þó sá að þegar að kjarnanum er komið, þá er leikurinn sá sami og Uncharted 4: A Thief‘s End. Sama grafíkin (stórgóð að vísu), að mörgu leyti svipað umhverfi (mjög flott umhverfi), sama prílið, sömu bardagarnir og fleira. Persónurnar eru í rauninni það eina sem er breytt.
Það er ekki endilega slæmt þar sem U4 var frábær leikur. UTLL er það líka og það er skiljanlegt að hann svipi verulega til U4, þar sem hann byrjaði sem aukapakki. Framleiðslan vatt svo upp á sig og úr varð heill leikur, sem er bara þrusugóður.
Allir þeir sem skemmtu sér yfir ævintýrum Nathan Drake og félaga, ættu einnig að skemmta sér yfir ævintýri Chloe og Nadine.