Körfubolti

Kristófer: Eiginlega okkar heimavöllur líka

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Kristófer Acox í leiknum í dag.
Kristófer Acox í leiknum í dag. Vísir/getty
„Við byrjuðum mjög vel fyrstu tíu mínúturnar, vorum yfir eftir fyrsta leikhluta. Síðan kemur einhver lægð í öðrum leikhluta og holan er orðin of djúp til þess að komast aftur upp úr henni,“ sagði Kristófer Acox í viðtali við Óskar Ófeig Jónsson eftir 75-102 tap Íslands gegn Slóveníu á Evrópumótinu í körfubolta í dag.

Íslenska liðið mætti mjög grimmt til leiks og byrjuðu leikinn mjög vel, en svo sýndu Slóvenar styrk sinn og voru yfir 43-60 í hálfleik.

„Við förum inn í leikhléið með það að koma í þriðja leikhluta og reyna aðeins að klóra í bakkann, en það bara gerðist alls ekki og við missum þá ennþá lengra fram úr okkur og þá er þetta orðið of erfitt á móti svona góðu liði,“ sagði Kristófer.

„Þeir eru taplausir í okkar riðli, þannig að þeir eru á toppnum og við vissum það fyrir leikinn. En við vissum líka að þetta væri leikur sem við ættum að geta tekið ef við spilum vel.“

Craig Pedersen, landsliðsþjálfari, gerði vel í að rúlla á leikmannahópnum í dag og stóðu varamennirnir sig vel í leiknum. 

„Mjög ánægður [með leikmenn sem komu inn af bekknum], sérstaklega með Elvar og Tryggva. Þeir voru að nýta sínar mínútur bara mjög vel og þeir komu með drifkraft, og Ægir líka, og náðu að rífa þetta aðeins upp.“ 

Þrátt fyrir stórt tap í dag, voru úrslitin samt þau bestu hjá íslenska liðinu til þessa og var Kristófer að vonum ánægður með það

„Þetta eru alltaf 20-30 stig, en við náum aðeins að laga stöðuna [í dag] og það er jákvætt. Það er einn leikur eftir og ég trúi ekki öðru en að við gefum allt í þetta.“

Síðasti leikur Íslands á mótinu verður gegn Finnum annað kvöld, en hefst leikurinn klukkan 17:45 að íslenskum tíma. Kristófer vonar að fyrsti sigur Íslands á Eurobasket verði þá að veruleika.

„Þetta eru bara körfuboltamenn eins og við. Við þurfum bara að koma brjálaðir inn og gefa allt. Það verður troðfullt hús held ég, Finnar á heimavelli en við eiginlega líka á heimavelli með allt þetta fólk í stúkunni Vonandi náum við að gefa þeim alvöru leik í 40 mínútur og taka allavega einn sigur á þessu móti,“ sagði Kristófer Acox.

Kristófer skoraði 4 stig í leiknum í dag, tók 3 fráköst og átti einn stolinn bolta.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×