Margrét flutti í Reynihvamm í suðurhlíðum Kópavogs fyrir rúmlega tuttugu árum, þá nýbyrjuð að búa.

Við bjuggum á neðri hæð sem var gengið inn í úr garðinum svo við vorum með opið út frá apríl og fram í október og garðurinn varð eiginlega hluti af íbúðinni.
Í þessu hverfi eru húsin frekar lítil en garðarnir risastórir enda ræktaði fólk sér til matar hér á árum áður og gerir enn, nágrannarnir eru með hænsni og skemmtileg sveitastemming. Og okkur fannst æðislegt að geta gengið beint út í garð,“ segir Margrét.

„Það voru einar litlar svalir á efri hæðinni og svo þurfti að ganga hring í kringum húsið til að komast í garðinn. Við söknuðum þess mikið að komast ekki fyrirhafnarlaust út í garð.“
Því var ákveðið að setja stiga fram af svölunum og niður í garðinn en af ýmsum ástæðum dróst verkið þannig að þegar loks var hægt að hefjast handa hafði hugmyndin tekið ýmsum breytingum.
„Það sem átti að verða örlítil stækkun á svölunum varð að stórum palli og stiga niður og svo árið eftir var komið að því að endurnýja hellur sem voru í garðinum undir svölunum og við ákváðum að setja bara pall þar líka. Þannig að núna er ég með pall á tveimur hæðum,“ segir Margrét alsæl og bætir við að þar sé alltaf skjól.

Margrét segir að húsgögnin á pallinum séu samansafn héðan og þaðan þó uppistaðan sé garðhúsgögn sem eiginmaður Margrétar, Jóhann Hansen, fékk í þrítugsafmælisgjöf fyrir sautján árum.
Tengdafaðir Margrétar sér svo um að prýða pallinn blómum en annars er stefnan að leyfa því að vaxa óáreitt sem ákveður að sá sér í potta og kirnur.

„Þetta er bekkur sem maðurinn minn smíðaði og hægt er að rugga sér í. Það er skyggni yfir og mikið skjól og dásamlegt að sitja þar og lesa eða spjalla.“
