Talað er um faraldur í þessu samhengi en margir telja að mun fleiri umhverfisverndarsinnar séu myrtir fyrir tilstuðlan hagsmunaaðila sem ásælast auðlindir á afskekktum og fátækum svæðum víðs vegar um heiminn.
Fjallað er ítarlega um málið á vef Guardian en blaðið hóf nýlega samstarfsverkefni með samtökunum Global Witness sem hefur það að markmiði að fjalla um þá umhverfissinna sem myrtir eru vegna baráttu sinnar og varpa ljósi á það hvers vegna og hverjir það eru sem drepa þá.
Flestir þeirra umhverfisverndarsinna sem myrtir eru láta lífið í afskekktum skógum eða þorpum þar sem námavinnsla, stíflur, ólöglegt skógarhögg og/eða landbúnaður hafa áhrif á líf fólks.

Umhverfisverndarsinnarnir heyja baráttu við stórfyrirtæki, aðra fjársterka aðila og jafnvel stjórnvöld til að vernda ósnortin landsvæði sem í mörgum tilfellum eru híbýli frumbyggja eða eru mikilvæg menningarleg verðmæti í augum þeirra. Margir morðingjanna eru ráðnir til verksins af fyrirtækjum eða stjórnvöldum en lögreglan ber kennsl á afar fáa þeirra og handtekur því ekki marga.
Billy Kyte, einn af forsvarsmönnum Global Witness, segir að morðin sem samtökin hafi skráð hjá sér séu aðeins lítið brot af vandamálinu.
„Samfélög sem berjast gegn umhverfisspjöllum eru núna skotmark öryggisvarða stórfyrirtækja, leigumorðingja, lögreglu og hers. Fyrir hvern umhverfisverndarsinna sem er myrtur fá mun fleiri morðhótanir, öðrum er gert að yfirgefa heimili sín og enn aðrir horfa upp á eyðileggingu auðlinda. Þetta eru ekki einangruð atvik heldur er um að ræða kerfisbundnar árásir fyrirtækja og stjórnvalda á afskekkt svæði og samfélög frumbyggja.“

Rannsóknir sýna að deilur um umhverfið og hvernig nýta skuli auðlindir og landsvæði eru að aukast um allan heim.
„Þessar deilur koma upp vegna hnattvæðingarinnar. Kapítalismi er ofbeldisfull stefna og alþjóðleg fyrirtæki líta til fátækra landa eftir landi og auðlindum þar sem spilling er algengari og lagaumhverfið veikara. Fyrirtæki og ríkisstjórnir vinna nú saman að því að drepa fólk,“ segir Bobby Banerjee sem rannsakað hefur andstöðu við alþjóðleg þróunarverkefni í 15 ár.
Tölfræði Global Witness sýnir að námavinnsla og olía tengjast flestum morðum síðasta árs eða alls 33. Skógarhögg tengdist næstflestum morðum eða 23 en það sem af er þessu ári tengist landbúnaður flestum morðunum eða alls 22.
Stjórnvöld voru á bak við 43 af morðunum á seinasta ári, lögreglan var að verki í 33 tilfellum og herinn í 10 tilfellum. Öryggisverðir og leigumorðingjar voru svo að verki í 52 skipti.

Rómanska Ameríka er sú heimsálfa sem er hættulegust þeim sem vilja vernda náttúruna. Flestir umhverfisverndarsinnar voru myrtir í Brasilíu í fyrra, eða alls 49, margir þeirra í Amazon-frumskóginum. Framleiðsla á timbri tengdist 16 af þessum morðum en eyðing frumskógarins jókst um 29 prósent í fyrra.
Talið er að morðin verði fleiri á þessu ári en þau voru í fyrra. Þannig er líklegt að nýtt „met“ verði slegið í Brasilíu og á Filippseyjum og þá er ástandið í Kólumbíu einnig verra en það var. Eins og áður eru það svo frumbyggjar sem líða hvað mest fyrir baráttu sína fyrir umhverfi sínu, menningu og landsvæðum.
Nánar er fjallað um málið á vef Guardian og þá má kynna sér samstarfsverkefni blaðsins og Global Witness hér.