Skýrslan byggir á viðtölum við flóttafólk og fólk á faraldsfæti frá nokkrum löndum í Vestur- og Mið-Afríku. Í henni kemur meðal annars fram að nokkrar breytur valda því að fólk flýr heimaland sitt, aðrar en fátækt. Talið er að rekja megi ferðir ungs fólks og barna til hraðrar fólksfjölgunar, straums fólks til borga af landsbyggðinni, efnahagslegrar misskiptingar, langvarandi átaka, og vanmáttar stofnana til að styðja við þá samfélagshópa sem minnst mega sín.
Í myndbandinu hér fyrir neðan má sjá viðtal við stúlku sem er kölluð Joy. Hún er frá Nígeríu og ætlaði til Evrópu til að vinna sem hárgreiðslukona en endaði í mansali og vændi á Ítalíu.
Í skýrslunni kemur einnig fram að á svæðinu skorti úrræði til að vernda börn á flótta eða faraldsfæti. Fleiri en sjö milljónir barna eru þar nú á ferðinni. Börn eru helmingur þeirra sem eru á ferðinni og þeim fer stöðugt fjölgandi.
Í myndbandinu hér fyrir neðan er rætt við Mustapha sem er frá Gambíu. Hann var handtekinn í Líbíu á leið sinni til Evrópu.
UNICEF leggur til að gripið sé tafarlaust til eftirfarandi aðgerða til að vernda börn:
- Verja þarf börn á flótta og faraldsfæti, sérstaklega fylgdarlaus börn, gegn ofbeldi og misneytingu.
- Hætta þarf að hneppa í varðhald þau börn sem sækja um stöðu flóttamanns eða eru á faraldsfæti.
- Halda þarf fjölskyldum saman en það er sterkasta vopnið til að tryggja öryggi barna, veita þarf fjölskyldunum lagalega stöðu í framhaldinu.
- Halda þarf öllum börnum á flótta og faraldsfæti í námi og veita þeim heilbrigðisþjónustu sem og aðra grunnþjónustu.
- Þrýsta þarf á aðgerðir til að takast á við undirliggjandi orsakir stórfelldrar fjölgunar flóttamanna og fólks á faraldsfæti í heiminum.
- Vinna þarf gegn útlendingahatri, mismunun og jaðarsetningu minnihlutahópa.