Hörður samdi við Bristol City síðasta sumar og gekk flest í haginn framan af síðasta tímabili. Hann fékk hins vegar afar fá tækifæri eftir áramót og var kominn neðarlega í goggunarröðina hjá Johnson.
Hörður sýndi hins vegar hvers hann var megnugur í leiknum gegn Króatíu í gær. Hann spilaði afar vel í stöðu vinstri bakvarðar og skoraði svo sigurmark Íslands á lokamínútu leiksins.
Síminn stoppaði ekki hjá Herði eftir leik en meðal þeirra sem sendu honum skilaboð var áðurnefndur Johnson.
„Ég fékk einhver SMS frá þjálfaranum en ég á eftir að skoða þau betur. Kannski er þetta smá „wake up call“ um að ég fái að spila meira,“ sagðí Hörður í samtali við Hjört Hjartarson í útvarpsþættinum Akraborginni.
Mark Harðar var heldur sérstakt en boltinn fór af öxlinni á honum eftir hornspyrnu Gylfa Þórs Sigurðssonar og inn fyrir línuna.
„Ég sá hornspyrnuna koma, ég bakkaði og fannst ég vera aleinn inni í teig. Ég var vonsvikinn með hvernig ég skallaði boltann, ég hitti hann ekki það vel. Ég veit ekki hvort ég skallaði hann í öxlina á mér og hann hafi breytt um stefnu. Markvörðurinn var með störu og gat ekkert gert,“ sagði Hörður sem hefur nú skorað sigurmark Íslands í síðustu tveimur landsleikjum. Hann skoraði einnig eina markið í vináttulandsleik Íslands og Írlands í Dublin í lok mars.
Sigurmörk Harðar má sjá hér að neðan auk þess sem hlusta má á viðtalið úr Akraborginni í heild sinni.