Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir skoraði tvö mörk þegar Vålerenga rúllaði yfir Medkila, 1-6, í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.
Gunnhildur hefur nú skorað fjögur mörk í síðustu þremur leikjum Vålerenga. Hún skoraði einnig tvö mörk í sigri á Kolbotn í þarsíðustu umferð.
Þetta var þriðji sigur Vålerenga í síðustu fjórum leikjum. Gunnhildur og stöllur hennar eru í 7. sæti deildarinnar.
Sif Atladóttir var á sínum stað í vörn Kristianstads sem tapaði 1-0 fyrir Rosengård í sænsku úrvalsdeildinni. Þýska landsliðskonan Anja Mittag skoraði eina mark leiksins á 84. mínútu.
Kristianstads, sem Elísabet Gunnarsdóttir þjálfar, er í 10. sæti deildarinnar með sjö stig, einu stigi frá fallsæti.
