Björn Bergmann Sigurðarson skoraði tvívegis þegar Molde gerði 3-3 jafntefli við Sandefjord á útivelli í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.
Björn hefur því skorað þrjú deildarmörk á tímabilinu auk þess sem hann hefur gefið tvær stoðsendingar.
Óttar Magnús Karlsson sat allan tímann á varamannabekknum hjá Molde sem er í 5. sæti deildarinnar.
Ingvar Jónsson stóð í marki Sandefjord sem er í 10. sætinu.
Adam Örn Arnarson og Daníel Leó Grétarsson léku báðir allan leikinn fyrir Aalesund sem vann 3-1 sigur á Tromsö á heimavelli. Aron Elís Þrándarson er enn frá vegna meiðsla hjá Aalesund sem er í 7. sætinu.
Aron Sigurðarson lagði upp mark Tromsö sem hefur tapað þremur leikjum í röð.
Hjörtur Hermannsson stóð vaktina í vörn Bröndby sem gerði 1-1 jafntefli við SönderjyskE í dönsku úrvalsdeildinni í dag.
Hallgrímur Jónasson lék einnig allan leikinn fyrir Lyngby sem tapaði 3-0 fyrir FC Köbenhavn.
