Fótbolti

Eiður Smári að störfum á El Clasico

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári, lengst til hægri, í góðra manna hópi eftir sigur Barcelona í Meistaradeildinni vorið 2009.
Eiður Smári, lengst til hægri, í góðra manna hópi eftir sigur Barcelona í Meistaradeildinni vorið 2009. Vísir/Getty
Eiður Smári Guðjohnsen verður á vellinum þegar Real Madrid tekur á móti Barcelona í El Clasico á sunnudagskvöldið.

Eiður Smári, sem lék með Barcelona frá 2006 til 2009, verður  sérfræðingur beIN Sports sjónvarpsstöðvarinnar frá Katar, einnar stærstu íþróttasjónvarpsstöðvar heims.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem að Eiður Smári verður í hlutverki sérfræðings fyrir beIN Sports en hann hefur einnig sinnt samskonar störfum fyrir bresku sjónvarpsstöðvarinar, svo sem Sky Sports.

Það verður reyndar nóg að gera hjá Eiði Smára um helgina þar sem hann verður ásamt Jimmy Floyd Hasselbaink, sínum gamla liðsfélaga úr sóknarlínu Chelsea, gestur Chelsea TV í tengslum við bikarleik liðsins gegn Tottenham á morgun.

Real Madrid er með þriggja stiga forystu á Barcelona á toppi deildarinnar og leik til góða þar að auki. Sigur Madrídinga myndi því svo gott sem tryggja liðinu spænska meistaratitilinn í ár.

Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport en hann hefst klukkan 18.45 á sunnudagskvöld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×