Afl framfara Magnús Guðmundsson skrifar 12. apríl 2017 07:00 Við þurfum vel menntað fólk til þess að byggja hús og vegi. Halda úti mannsæmandi heilbrigðis- og velferðarkerfi, skapa ný verðmæti og gæta að þeim sem fyrir eru. Rækta listir og menningu samfélaginu til hagsbóta, reka hagkerfið, stjórna landinu og þannig mætti áfram telja. Góð menntun er mikilvægasti lykillinn að velferð okkar og framtíð. Þrátt fyrir aukið framboð til háskólamenntunar á Íslandi er og verður Háskóli Íslands um ókomna tíð þungamiðja þess mikilvæga hlutverks að sjá fólki fyrir þessari menntun. Þetta er sagt með fullri virðingu fyrir öðrum háskólum sem einfaldlega lúta öðrum og sérhæfðari lögmálum. Þetta skildu mætavel þær kynslóðir sem komu Háskóla Íslands á laggirnar og byggðu hann upp þrátt fyrir að samfélagið hafi í raun haft úr mun minna að spila á þeim tíma. Það er því þeim mun raunalegra að sjá hversu lítill skilningur virðist vera hjá ráðamönnum á samfélagslegri nauðsyn þess í dag að halda þessari uppbyggingu áfram. Í viðtali við Fréttablaðið síðastliðinn mánudag benti Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, á þá staðreynd að þrátt fyrir aukinn fjölda nemenda í kjölfar hrunsins sé í sífellu haldið áfram að vera með skólann í niðurskurði. Þær viðbætur sem fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir fram til 2022 duga í raun engan veginn til þess að snúa vörn í sókn. Þvert á móti bendir margt til þess að draga þurfi úr námsframboði og hætta við að byggja upp á sviði rannsókna og nýsköpunar. Þetta er dapurlegt og til merkis um skammsýna fjárfestingastefnu fyrir hönd samfélagsins. Þeir sem sækja sér háskólamenntum gera það á ýmsum forsendum en eiga þó sameiginlegt að vera að fjárfesta í framtíð sinni og það samfélaginu til hagsbóta. Það er því þeim mun óskiljanlegra að stjórnvöld skuli velja að skattleggja nemendur skólans með óbeinum hætti. En í viðtalinu við rektor HÍ kom einnig fram að skráningargjöld sem nemendur greiða til þess að fá að stunda nám við skólann renna aðeins að litlum hluta þangað. Af þeim 75 þúsund krónum sem hver nemandi greiðir renna nú tæp 20 þúsund til HÍ en restin í ríkissjóð. Nemendur við HÍ greiða með þessum hætti í ríkissjóð 700 milljónir sem væru að minnsta kosti ágætis byrjun í þá átt að bæta fjárhagsstöðu skólans. Samfélag sem snuðar þá sem vilja sækja sér menntun er að snuða sjálft sig um betri framtíð. Kristján Þór Júlíusson menntamálaráðherra bendir þó á í þessu samhengi að ríkisstjórnin setji heilbrigðismál og almannatryggingar í forgang í sínum áætlunum. Hvort forstjóri Landspítala Háskólasjúkrahúss taki undir að það sé með nægilega kröftugum hætti skal hér ósagt látið en það sem er mikilvægt er að ríkisstjórnin geri sér grein fyrir er að þetta er hvor sín greinin á sama trénu. Ef ætlunin er að byggja upp öflugt heilbrigðiskerfi á Íslandi, sem svo sannarlega er ekki vanþörf á, þá þurfum við öflugan og fjárhagslega sterkan háskóla. Skóla sem getur skilað samfélaginu vel menntuðum einstaklingum á fjölmörgum sviðum, sinnt rannsóknarhlutverki sínu og verið það afl framfara sem háskóli á að vera í nútíma samfélagi.Leiðarinn birtist fyrst í Fréttablaðinu 12. apríl. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Magnús Guðmundsson Mest lesið Kirkjur og kynfræðsla Bjarni Karlsson Skoðun Stóriðjutíminn á Íslandi er að renna sitt skeið Guðmundur Franklin Jónsson Skoðun Kynjajafnrétti á ekki að stöðvast við hurð heilbrigðiskerfisins Elín A. Eyfjörð Ármannsdóttir Skoðun Lesum meira með börnunum okkar Steinn Jóhannsson Skoðun Barnvæn borg byggist á traustu leikskólakerfi Stefán Pettersson Skoðun Ójöfnuður í fjármögnun nýsköpunarverkefna Elinóra Inga Sigurðardóttir Skoðun Núll mínútur og þrjátíuogeittþúsund Grétar Birgisson Skoðun Ég þarf ekki að læra íslensku til að búa hérna Halla Hrund Logadóttir Skoðun Ógn og ofbeldi á vinnustöðum – hvað er til ráða Gísli Níls Einarsson Skoðun Hvað vilja sumarbústaðaeigendur í Grímsnes- og Grafningshreppi? Bergdís Linda Kjartansdóttir Skoðun
Við þurfum vel menntað fólk til þess að byggja hús og vegi. Halda úti mannsæmandi heilbrigðis- og velferðarkerfi, skapa ný verðmæti og gæta að þeim sem fyrir eru. Rækta listir og menningu samfélaginu til hagsbóta, reka hagkerfið, stjórna landinu og þannig mætti áfram telja. Góð menntun er mikilvægasti lykillinn að velferð okkar og framtíð. Þrátt fyrir aukið framboð til háskólamenntunar á Íslandi er og verður Háskóli Íslands um ókomna tíð þungamiðja þess mikilvæga hlutverks að sjá fólki fyrir þessari menntun. Þetta er sagt með fullri virðingu fyrir öðrum háskólum sem einfaldlega lúta öðrum og sérhæfðari lögmálum. Þetta skildu mætavel þær kynslóðir sem komu Háskóla Íslands á laggirnar og byggðu hann upp þrátt fyrir að samfélagið hafi í raun haft úr mun minna að spila á þeim tíma. Það er því þeim mun raunalegra að sjá hversu lítill skilningur virðist vera hjá ráðamönnum á samfélagslegri nauðsyn þess í dag að halda þessari uppbyggingu áfram. Í viðtali við Fréttablaðið síðastliðinn mánudag benti Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, á þá staðreynd að þrátt fyrir aukinn fjölda nemenda í kjölfar hrunsins sé í sífellu haldið áfram að vera með skólann í niðurskurði. Þær viðbætur sem fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir fram til 2022 duga í raun engan veginn til þess að snúa vörn í sókn. Þvert á móti bendir margt til þess að draga þurfi úr námsframboði og hætta við að byggja upp á sviði rannsókna og nýsköpunar. Þetta er dapurlegt og til merkis um skammsýna fjárfestingastefnu fyrir hönd samfélagsins. Þeir sem sækja sér háskólamenntum gera það á ýmsum forsendum en eiga þó sameiginlegt að vera að fjárfesta í framtíð sinni og það samfélaginu til hagsbóta. Það er því þeim mun óskiljanlegra að stjórnvöld skuli velja að skattleggja nemendur skólans með óbeinum hætti. En í viðtalinu við rektor HÍ kom einnig fram að skráningargjöld sem nemendur greiða til þess að fá að stunda nám við skólann renna aðeins að litlum hluta þangað. Af þeim 75 þúsund krónum sem hver nemandi greiðir renna nú tæp 20 þúsund til HÍ en restin í ríkissjóð. Nemendur við HÍ greiða með þessum hætti í ríkissjóð 700 milljónir sem væru að minnsta kosti ágætis byrjun í þá átt að bæta fjárhagsstöðu skólans. Samfélag sem snuðar þá sem vilja sækja sér menntun er að snuða sjálft sig um betri framtíð. Kristján Þór Júlíusson menntamálaráðherra bendir þó á í þessu samhengi að ríkisstjórnin setji heilbrigðismál og almannatryggingar í forgang í sínum áætlunum. Hvort forstjóri Landspítala Háskólasjúkrahúss taki undir að það sé með nægilega kröftugum hætti skal hér ósagt látið en það sem er mikilvægt er að ríkisstjórnin geri sér grein fyrir er að þetta er hvor sín greinin á sama trénu. Ef ætlunin er að byggja upp öflugt heilbrigðiskerfi á Íslandi, sem svo sannarlega er ekki vanþörf á, þá þurfum við öflugan og fjárhagslega sterkan háskóla. Skóla sem getur skilað samfélaginu vel menntuðum einstaklingum á fjölmörgum sviðum, sinnt rannsóknarhlutverki sínu og verið það afl framfara sem háskóli á að vera í nútíma samfélagi.Leiðarinn birtist fyrst í Fréttablaðinu 12. apríl.
Kynjajafnrétti á ekki að stöðvast við hurð heilbrigðiskerfisins Elín A. Eyfjörð Ármannsdóttir Skoðun
Hvað vilja sumarbústaðaeigendur í Grímsnes- og Grafningshreppi? Bergdís Linda Kjartansdóttir Skoðun
Kynjajafnrétti á ekki að stöðvast við hurð heilbrigðiskerfisins Elín A. Eyfjörð Ármannsdóttir Skoðun
Hvað vilja sumarbústaðaeigendur í Grímsnes- og Grafningshreppi? Bergdís Linda Kjartansdóttir Skoðun