
Fyrir fáum árum var einmitt orðrómur um slíka flugu úr safni þess merka manns Péturs Steingrímssonar og átti flugan sú arna að vera einstaklega veiðin í ánni hans Péturs, Laxá í Aðaldal, en svo fór víst með hana að hvar sem hún fékk að skauta um hylji veiddi hún hún vel og varð því umtöluð og eftirsótt. Það voru ekki margir sem áttu þessa flugu á sínum tíma og hvað þá að hún væri hnýtt af Pétri en Bubbi Morthens er einn af þeim og þegar veiðibókín í Nesi við Laxá er skoðuð eru þeir ófáir laxarnir sem eru bókaðir á Bubba og veiddir á þessa merku flugu.
Það er eitthvað við hana sem gengur upp og gerir hana veiðna og það virðist engu máli skipta á hvaða tíma veitt er á hana, alltaf virðist hún slíta upp laxa. Einn af þeim sem er af flestum talinn einn besti hnýtari á Íslandi hefur sérstakt dálæti á þessari flugu og hefur nú hnýtt litaafbrigði af henni sem eru ekkert síður veiðilegar en sú upprunalega. Nils Folmer Jorgensen þekkja líklega flestir veiðimenn annað hvort af orðspori eða þá að hafa orðið þeirrar ánægju njótandi að hitta og kynnast manninum í persónu. Hann hefur nú skellt myndum af þessum fallegu afbrigðum af Metalicu á Facebooksíðuna sína og við fengum góðfúslegt leyfi til að birta myndir af þessum flugum.
"Þessar eru allar nýjar en í samanburðinum við upprunalegu hnýtinguna hans Péturs vill ég mínar með mýkra hári, minni haus og að prófa litaafbrigði er svo sem sagan endalausa. Ég hlakka til að prófa þessa hvítu á sumar á björtu dögunum í Víðidalsá og auðvitað í Aðaldalnum. Ég held að þessir nýju litir gætu gefið góða raun en það kemur bara í ljós þegar ég hnýti þær undir" segir Nils í samtali við Veiðivísi. Framundan hjá Nils er veiði í Þingvallavatni en fáir hafa líklega veitt jafn marga stóra urriða í vatninu í vorveiðinni.