Max Verstappen, ökumaður Red Bull liðsins hefur sagt að RB13 bíll liðsins geti ekki ógnað Mercedes eða Ferrari í upphafi tímabils.
RB13 var fjórði fljótasti bíllinn áæfingum í Barselóna. Hann var á eftir Mercedes, Ferrari og Williams bílunum.
Red Bull mun þó líklega liggja á frammistöðu þangað til í Ástralíu næstu helgi. Bíllinn sem var kynntur og notaður á æfingum fyrir tímabilið var afar einfaldur. Adrian Newey, yfirhönnuður og loftflæðigúrú hjá Red Bull mun líklega beita snilli sinni enn frekar á bílinn og finna nokkur sekúndubrot með flóknari yfirbyggingu.
„Við verðum að bíða og sjá hversu góð við erum í rauninni,“ sagði Verstappen í samtali við De Telegraaf.
„Persónuega, held ég að við getum ekki barist um sigur í augnablikinu. Margt getur breyst yfir tímabilið en við erum ekki nógu góðir til að vinna eins og er,“ bætti Verstappen við.
„Eftir tímatökuna í Ástralíu munum við hafa betri sýn á stöðuna,“ hélt Verstappen áfram.
„Í augnablikinu held ég að bæði Ferrari og Mercedes verði fljótari en við, en vonandi munum við geta tekið framförum yfir tímabilið eins og í fyrra,“ sagði Verstappen.
Verstappen: Red Bull ekki nógu gott til að vinna strax

Tengdar fréttir

Myndrænt yfirlit yfir breytingar á Formúlu 1 bílum
Stærri, grimmari og fljótari, allt orð sem nota má til að lýsa nýju Formúlu 1 bílunum. Hér að neðan er að finna myndræna framsetningu á breytingunum sem hafa átt sér stað.

Bottas: Verð ekki skelfingu lostin ef Hamilton verður fljótari
Valtteri Bottas hefur mikið að sanna í fyrstu keppni Formúlu 1 tímabilsins, sem fer fram í Ástralíu aðra helgi. Bottas segir að hann verði ekki skelfingu lostinn ef Lewis Hamilton verður fljótari en hann.

Paddy Lowe kominn til Williams sem tæknistjóri og hluthafi
Paddy Lowe, fyrrum tæknistjóri Mercedes er kominn til liðs við Williams og er orðinn hluthafi og stjórnarmaður hjá liðinu.