Fótbolti

Komu sérstaklega frá Bandaríkjunum til að styðja Ísland í kvöld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Snævar og Gunnar voru hressir og kátir í blíðunni í Shkoder í dag.
Snævar og Gunnar voru hressir og kátir í blíðunni í Shkoder í dag. Vísir/E. Stefán
Kósóvó og Ísland mætast í undankeppni HM 2018 í kvöld og er búist við fjölmenni á leiknum, þrátt fyrir að hann fari fram í nágrannalandinu Albaníu.

Reiknað er með um 20-30 Íslendingum á vellinum í kvöld en blaðamaður Vísis rakst á tvo þeirra á röltinu um miðbæ Shkoder í dag.

Gunnar Birgisson og Snævar Hreinsson hafa verið búsettir í Bandaríkjunum í nærri þrjá áratugi en halda enn góðum tengslum við gamla landið og styðja strákana okkar til dáða.

Gunnar sagði Vísi að þeir hefðu farið á leiki Íslands gegn Ungverjalandi og Portúgal á EM í sumar og halda nú áfram að fylgja íslenska liðinu eftir. Þeir komu alla leið til Albaníu í þeim eina tilgangi að styðja strákana til dáða í leiknum í kvöld.

„Þetta er svo gaman, ég skil ekki að það skuli ekki vera fleiri Íslendingar á leiðinni á leikinn,“ sagði Gunnar í léttum dúr.

Það var annars góð stemning í miðbænum í dag og stuðningsmenn Kósóvó byrjaðir að fjölmenna og hita upp fyrir leikinn í kvöld. Shkoder er í um 3-4 tíma akstursfjarlægð frá höfuðborginni Pristina í Kósóvó.

Leikurinn hefst klukkan 19.45 að íslenskum tíma og verður fylgst með gangi mála á Boltavakt Vísis.

Vísir/E. Stefán
Vísir/E. Stefán
Vísir/E. Stefán
Vísir/E. Stefán



Fleiri fréttir

Sjá meira


×