Fótbolti

Ronaldo orðinn fjórði markahæsti Evrópumaðurinn í landsleikjum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Skorar og skorar.
Skorar og skorar. vísir/getty
Cristiano Ronaldo skoraði tvö mörk í 3-0 sigri Portúgals gegn Ungverjalandi í undankeppni HM 2018 um helgina en hann er nú búinn að skora 70 mörk í 137 landsleikjum fyrir portúgalska landsliðið.

Með mörkunum tveimur komst Ronaldo í fjórða sætið yfir markahæstu leikmenn Evrópu í landsleikjum frá upphafi en hann er einu marki á eftir Miroslav Klose, fyrrverandi framherja þýska landsliðsins. Hann skoraði 71 mark í 137 leikjum fyrir Þjóðverja.

Það er skemmtileg tilviljun að Ronaldo hafi komist upp í fjórða sætið með tveimur mörkum á móti Ungverjalandi því tveir efstu menn listans spiluðu einmitt fyrir ungverska landsliðið.

Langefstur er goðsögnin Ferenc Puskas sem skoraði 84 mörk í 85 landsleikjum fyrir Ungverjaland og samherji hans til margra ára í landsliðinu, Sandor Kocsis, er í öðru sæti með 75 mörk í 68 landsleikjum.

Ronaldo á mikið eftir og þyrfti ekki að koma neinum á óvart ef hann verður markahæsti Evrópumaðurinn áður en langt um líður. Það er þó langt í manninn sem hefur skorað flest mörk allra í landsleikjum en Ali Daei skoraði 109 mörk í 149 leikjum fyrir Íran.

Ronaldo verður aftur á ferðinni annað kvöld þegar Portúgal mætir Svíþjóð en með marki þar kemst Ronaldo inn á topp tíu yfir markahæstu landsliðsmenn frá upphafi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×