Bíó og sjónvarp

Baltasar langt kominn með Kötlu-þættina og lítur á óróann í eldstöðinni sem "teaser“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
„Við erum komin mjög langt með þetta. Við erum búin að skrifa fyrsta þáttinn og útlínu af fyrstu seríunni, tíu þáttum,“ segir Baltasar Kormákur um fyrirhuga þætti sína um eldgos í Kötlu.

Baltasar var ásamt Páli Einarssyni, jarðeðlisfræðingi, gestur Eddu Andrésardóttur í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld þar sem þeir ræddu vítt og breitt um kvikmyndagerðina og hversu sennilegt er að Katla geti kosið í tvö ár samfellt, en þegar þættirnir hefjast verður Katla búinn að í gjósa í tvö ár samfleytt.

„Katla og reyndar þessar helstu eldstöðvar eru mjög fjölhæfar eldstöðvar. Þær geta gert allan skrattann, bæði mjög stutt gos sem standa í nokkrar mínútur eða klukkutíma en þær eiga líka þetta til að gjósa stundum mjög lengi,“ sagði Páll spurður um hvort að Katla ætti það til að gjósa svo lengi.

Eyjafjallajökull gaus með látum árið 2010Vísir/Vilhelm
„Þú verður bara að láta þér detta nógu margt í hug og svo rekum við það bara beint ofan í þig aftur“ 

Baltasar vonast til þess að verkefnið fari í gang á næsta ári og er hann nú í viðræðum við eitt stærsta fyrirtæki í Evrópu um samstarf. Baltasar segir að mikill áhugi sé fyrir þáttunum enda vekji Katla mikla athygli, ekki síst eftir gosið í Eyjafjallajökli árið 2010 sem hafði mikil áhrif á samgöngur, sérstaklega í Evrópu.

Í takt við það munu bæði íslenskir og erlendir leikarar leika hlutverk í þáttunum en Baltasar segir að í þáttunum verði einnig örlítill vísindaskáldskapur.

„Þetta daðrar við sci-fi. VIð erum að sjá hluti sem við höfum ekki séð síðan á Ísöld. Það veit enginn hvað er á þessum jökli,“ sagði Baltasar en bráðnun jökla mun spila sitt hlutverk í þáttunum.

Sjá einnig: Öll fjögur virkustu eldfjöllin í einhvers konar ham

Á þessum tímapunkti blandaði vísindamaðurinn Páll sér í umræðuna og benti Baltasar á að vísindamenn vissu nú ýmislegt um Kötlu.

„Það er nú búið að kortleggja sæmilega landslag og svoleiðis og menn vita nokkurn veginn hvernig Katla er í laginu og allt það en hún er miklu stærri en menn gera sér grein fyrir,“ sagði Páll.

Baltasar hefur áður tekist á við hamfarir.
„Hans hlutverk er að nota staðreyndir, mitt hlutverk er að búa til mystík, ég vil ekki vita of mikið,“ sagði Baltasar þá hlæjandi en hann lítur á þann óróa sem verið hefur í Kötlu undanfarna mánuði sem ákveðna auglýsingu fyrir þættina.

„Ég lít á Kötlu og hristinginn í henni, ég vil nú ekki vera of léttúðugur, sem eins og teaser-trailer. Hún er að búa til spennu fyrir okkur hægt og rólega,“ sagði Baltasar.

„Þú verður bara að láta þér detta nógu margt í hug og svo rekum við það bara beint ofan í þig aftur,“ svaraði Páll um hæl.

Spurði hvort að Páll gæti ekki lesið yfir handrit og samið tónlist

En þrátt fyrir að Baltasar sé sérfræðingurinn um kvikmyndagerð og Páll sérfræðingur um eldstöðvar hefur Páll þó reynslu af því starfa við handritsgerð en á námsárum hans í Bandaríkjunum lagfærði hann handrit að þáttunum Hawaii 5-0 þar sem einn handritshöfunda hafði farið ansi frjálslega með hlutverk eldgoss í einum þætti.

Lagði Edda þá til að Baltasar fengi Pál til þess að fara yfir handritið og skaut því að Páli væri margt til lista lagt fyrir utan vísindastörfin, hann spilaði bæði á kontrabassa og selló. Spurði Edda hvort það væri ekki lag að fá Pál til þess að spila inn á þættina?

„Selló og kontrabassi eru náttúrulega hljóðfæri sem að hljóma mjög vel með eldgosi þannig að það er aldrei að vita nema ég fái Palla til að, þegar hann er búinn að leiðrétta handritið, til að koma og spila fyrir mig,“ sagði Baltasar.

„Það má sarga fyrir þig tón og tón,“ svaraði Páll en innslagið í heild sinni má sjá hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.